Skoteldar

HMS hefur eftirlit með að skoteldar og flugeldavörur standist lágmarksgæðakröfur og hvort merkingar á þeim séu fullnægjandi.  Almenn notkun og sala á skoteldum er óheimil nema á tímabilinu 28. desember til 6. Janúar, að báðum dögum meðtöldum þó má selja skotelda í flokki 1 allt árið.

Skoteldar eiga að vera CE merktir og það þarf leyfi lögreglu til að flytja inn og selja þá.

https://www.logreglan.is/adstod/eydublod/skoteldar-og-brennur/

Flokkar

Skoteldum er skipt í fjóra meginflokka eftir púðurmagni og hættu.

  • 1. flokkur: Skoteldar sem mjög lítil hætta stafar af, hávaðastig er óverulegt og sem eru ætlaðir til notkunar á lokuðum svæðum, þ.m.t. skoteldar sem eru ætlaðir til notkunar inni í íbúðarhúsum. Lágmarksaldur kaupanda er 12 ár.
  • 2. flokkur: Skoteldar sem lítil hætta stafar af, hávaðastig er lágt og sem ætlaðir eru til notkunar utan húss á lokuðum svæðum, í húsagörðum eða öðrum minni svæðum. Lágmarksaldur kaupanda er 16 ár.
  • 3. flokkur: Skoteldar sem miðlungs hætta stafar af, sem eru ætlaðir til notkunar utan dyra á stórum opnum svæðum og með hávaðastig sem er ekki skaðlegt heilbrigði manna. Lágmarksaldur kaupanda er 18 ár.
  • 4. flokkur: Skoteldar sem mikil hætta stafar af, sem ekki eru fullgerðir og/eða ekki eru ætlaðir til sölu til almennings og eru aðeins ætlaðir til notkunar af einstaklingum með sérfræðiþekkingu (almennt þekktir sem skoteldar til faglegra nota) og með hávaðastig sem ekki er skaðlegt heilbrigði manna.

Fyrir markaðsetningu

Áður en hægt er að selja skoteld þarf hann að vera CE merktur. Óleyfilegt er að selja skotelda sem eru ekki CE merktir til neytenda. Til að geta CE merkt skoteld þarf framleiðandi að byrja á því að senda vöruna í prófun til tilkynnts aðila sem getur prófað skotelda. Tilkynntur aðili er fyrirtæki sem hefur verið samþykkt sérstaklega af Evrópsku ríki til að meta og prófa skotelda. Ekki er neinn tilkynntur aðili á Íslandi sem getur tekið að sér slíka prófun.

Tilkynnti aðilinn metur svo hvort varan uppfylli lög og staðla. Sé varan í lagi útbýr tilkynnti aðilinn prófunarskýrslur og gerðarviðurkenningu fyrir framleiðanda. Framleiðandi þarf þá að útbúa samræmisyfirlýsingu. Í samræmisyfirlýsingu lýsir framleiðandi því yfir að hann sjálfur beri ábyrgð á því að varan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Að því loknu má CE merkja vöruna. CE merkið er því

CE merkingin verður alltaf eftirfarandi:

XXXX-YY-ZZZZ...

XXXX stendur fyrir númer tilkynnts aðila sem samþykkti vöruna, YY um flokk skoteldsins og ZZZZ... er raðnúmer vörunnar.

Merkingar umbúða

Á umbúðum skotelda á að koma fram heiti og heimilisfang framleiðanda og innflytjanda vörunnar og flokkur skotelds. Þá þurfa viðvörunarmerkingar og leiðbeiningar á íslensku að vera á umbúðum skotelda og fer það eftir flokki skotelds hvað á að koma fram. Meira um slíkar merkingar má sjá í staðli ÍST EN 15947 - 3:2015, Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldavörur í flokki 1, 2 og 3 - Hluti 3: Lágmarkskröfur um merkingar.

Hafðu í huga

HMS tekið saman nokkur lykilatriði sem gott er að hafa í huga á gamlárskvöld:

  • Lestu og fylgdu leiðbeiningum á umbúðum skoteldsins
  • Notaðu öryggisgleraugu
  • Virtu fjarlægðarmörk
  • Ef skoteldur virkar ekki skaltu bíða í 15 mín og hella svo vatni yfir hann
  • Ekki kveikja á skoteld í höndum sem er ekki með handfang, eins og stjörnuljós og handblys

Lög og reglu­gerð­ir