Vörur úr eðalmálmum

HMS fer með markaðseftirlit með vörum sem unnar eru úr eðalmálmum í samræmi við ákvæði laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og laga nr. 77/2002 um  vörur unnar úr eðalmálmum og reglugerðar um vörur unnar úr eðalmálmum nr. 938/2002. Lögunum er ætlar að vernda neytendur með því að tryggja að sú vara sem þeim er boðin sé í samræmi við lýsingu seljenda. Um leið tryggja lögin sanngjarna samkeppni á milli innflytjanda og framleiðanda. Lögunum er einnig ætlað að tryggja að vörur sem unnar eru úr eðalmálmum á Íslandi megi selja erlendis. Það er krafa í mörgum nágrannalöndum okkar að vörur unnar úr eðalmálmum séu merktar samkvæmt opinberum reglum.

Hugtakið vörur unnar úr eðalmálmum vísar til vara sem eru framleiddar að hluta eða að öllu leyti úr góðmálmi eða málmblöndu. Á Íslandi eru vörur eins og til dæmis skartgripir og borðbúnaður sem unnir eru gulli, silfri, platínum og palladíum vörur unnar úr eðalmálmum.

Hér má finna lista yfir viðurkennda nafnastimpla og hér er hægt að nálgast umsókn um nafnastimpil.

Hreinleikastimplar

Hreinleikastimpill er eina staðfestingin sem fólk hefur á hversu mikið hlutfall eðalmálms er í hlutnum. Hreinleikastimpill er þriggja tölustafa stimpill sem segir til um þann hreinleika sem seljendur lofa við sölu vörunnar. Sem dæmi merkir hreinleikastimpillinn 585 að varan innihaldi 58,5% af hreinu gulli.
Í eftirfarandi töflu sést hvaða hreinleiki er viðurkenndur á Íslandi og kemur fram í stimpli. 

Eðalmálmur   Staðlaður hreinleiki
Gull 375, 585, 750, 916
Silfur  800. 830, 925 eða 800S. 8308S. 925S
Platína  850, 950, 950 eða 850Pt, 900Pt, 950Pt
Palladíum  500, 950 eða 500Pd, 950Pd

 Hreinleikastimplar á vörum frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins eru jafngildir innlendum stimplum, þó svo þeir séu ekki í samræmi við íslensk lög, svo framarlega sem þeir veita kaupendum sömu upplýsingar og íslensku hreinleikastimplarnir. Sem dæmi eru 18 mismunandi hreinleikastaðlar í Evrópusambandinu fyrir hreinleika gulls: 333, 375, 417, 500, 583, 585, 750, 800, 833, 835, 840, 900, 916, 958, 960, 986, 990 og 999. Fyrir silfur eru 15 mismunandi tegundir af hreinleikastimplum.
Sé vara svo lítil að það er ekki hægt að merkja hana þarf ekki að merkja hana með hreinleikastimpli. Það sama gildir einnig ef vara úr gulli vegur minna en 1 g eða vara úr silfri er undir 3 g.

Hér áður voru karöt notuð sem mælikvarði á hreinleika gulls og platínu. Eitt karat er 1/24 hreinleiki gulls, þar af leiðandi er skartgripur úr hreinu gulli 24 karöt, skartgripur sem er 18 karöt er 75% gull, 12 karöt eru 50% gull og svo framvegis. Samkvæmt íslenskum lögum á ekki að merkja vörur með karötum heldur í þúsundhluta miða við þunga málmblöndunnar, sem dæmi er vara sem inniheldur 75% hreint gull merkt með 750.

Nafnastimplar

Nafnastimpill er það sem auðkennir framleiðanda, seljanda eða innflytjanda vöru þannig að hægt sé að rekja uppruna hennar. Nafnastimpill segir hver ber ábyrgð á vörunni og að hún samræmist kröfum.