Leikvallatæki

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur eftirlit með nýjum leikvallatækjum á markaði en innflytjendur og framleiðendur leikvallatækja þurfa að sýna fram á að þau uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þeirra áður en þau eru sett á markað.  Heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna hafa eftirlit með leikvallatækjum í notkun og leiksvæðum sem heyra undir þær. 

Leikvallatæki eru almenn neytendavara þarf af leiðandi eiga þau ekki að vera  CE merkt og þarf ekki leyfi yfirvalda til að selja þau. En það gilda reglur um hvar má staðsetja leikvallartæki, sjá nánar í reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim

Öryggiskröfur fyrir leikvallatæki og merkingar

Leikvallatæki sem seld eru á evrópska efnahagssvæðinu verða að uppfylla skilyrði laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og reglugerð nr. 942/2002.  Leikvallatæki sem eru til sölu, leigu eða hvers kyns annarrar afhendingar í atvinnuskini á markaði, eiga að vera þannig úr garði gerðar að þær skapi ekki hættu fyrir notendur og uppfylli kröfur viðeigandi staðla samanber ÍST EN 1176 og ÍST EN 1177. Þetta er gert með yfirlýsingu framleiðanda, ásamt rökstuddri umsögn þar sem fram koma tæknilegar upplýsingar um einstök leikvallartæki unnin af aðila með sérþekkingu á framangreindum stöðlum og með hliðsjón af ÍST EN 45004.

Leikvallatækjunum verða að fylgja allar nauðsynlegar upplýsingar helst á íslensku en annars á ensku eða norðurlandamáli þó ekki á finnsku. Upplýsingar sem þurfa að fylgja eru m.a.:

·         Leiðbeiningar um uppsetningu og viðhald tækjanna svo og upplýsingar um þá staðla sem framleiðslan byggist á.

·         Teikningar af tækinu fullbúnu og upplýsingar um nauðsynleg verkfæri og önnur hjálpargögn við uppsetningu tækjanna.

·         Upplýsingar um ráðlagða notkun og fyrir hvaða aldurshóp.

Þá eiga tækin að vera merkt framleiðanda, vörumerki hans eða öðru auðkenni. Ef um er að ræða innflutt tæki þá á að koma fram nafn innflytjanda á leikvallatækinu.