Umhverfismál

Vistvænar áherslur HMS endurspeglast einkum í umhverfis- og loftslagsstefnu stofnunarinnar ,framtíðarsýn hennar og þeim Heimsmarkmiðum sem tengd hafa verið við starfsemi hennar.

Áherslurnar ná bæði til reksturs HMS og faglegrar starfsemi. Við rekstur HMS er meðal annars unnið að því að minnka þá kolefnislosun sem hlýst af orkunýtingu, samgöngum og úrgangi stofnunarinnar. Þá reynum við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum rekstursins til dæmis með minni sóun, betri flokkun og vistvænum innkaupum. Innleiðing Grænna skrefa í ríkisrekstri og árangursmælingar með Grænu bókhaldi hafa hjálpað okkur í því sambandi.

Hvað faglega starfsemi HMS varðar, vill stofnunin leggja sitt af mörkum til að efla vistvæna þróun í húsnæðis- og mannvirkjagerð. Það gerum við til dæmis með því að birta fræðslumola og einföld ráð um vistvæn mannvirki á HMS.is. Einnig með þátttöku í Grænni byggð og öflugum samstarfsverkefnum á borð við Byggjum grænni framtíð. Norrænt samstarf á sviði umhverfismála hefur einnig reynst okkur sérlega verðmætt og hvetjandi.