Heimsmarkmiðin og HMS

Fulltrúar allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna samþykktu Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í september 2015. Markmiðin eru 17 talsins og undirmarkmiðin 169.

Aðildarríkin hafa skuldbundið sig til að vinna skipulega að innleiðingu Heimsmarkmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi allt til ársins 2030

Heimsmarkmið HMS

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun leggur áherslu á fimm Heimsmarkmið, sem endurspeglast meðal annars í lögbundnu hlutverki stofnunarinnar, framtíðarsýn, áætlunum og stefnum.

Forgangsmarkmið HMS styðja ekki bara við alþjóðlegar skuldbindingar stjórnvalda og gera þetta verðuga verkefni sýnilegra til að hvetja aðra til þátttöku, heldur teljum við að þau styrki hlutverk HMS og stefnu enn frekar. Auk þess veita þau okkur innblástur og hugmyndir að nýjum verkefnum í átt að aukinni sjálfbærni.

Forgangsmarkmið HMS og innbyrðis tengsl þeirra eru sett fram á myndinni hér til hliðar. Markmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög er í forgrunni. Það markmið er síðan stutt sérstaklega með aðgerðum sem tengjast markmiðum 9, 17 og 16 og loks er markmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum alltumlykjandi.

HMS leggur áherslu á fimm Heimsmarkmið í starfsemi sinni:

#11 Markmið um sjálfbærar borgir og samfélög

Það markmið er í forgrunni hjá HMS en það kallast á við skilgreint hlutverk stofnunarinnar sem felst annars vegar í að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með gæðum, öryggi og heilnæmi – og hins vegar að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja almenningi aðgengi að viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem er til eignar eða leigu.

Áhersla HMS á eftirfarandi þrjú markmið tryggir að árangur náist enn frekar varðandi sjálfbærar borgir og samfélög, en öll eiga þau samsvörun í framtíðarsýn HMS: ​

#9 Markmið um nýsköpun og uppbyggingu

HMS styður við rannsóknir og nýsköpun í húsnæðis- og mannvirkjageiranum.​

#17 Markmið um samvinnu um markmiðin

HMS vinnur stöðugt að því að efla markvisst samstarf við sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir, norræna starfsfélaga og aðra hagaðila húsnæðis- og mannvirkjamála.

#16 Markmið um frið og réttlæti

Hjá HMS er lögð mikil áhersla á að byggja upp skilvirka og ábyrga stofnun, sem er leiðandi í stafrænni stjórnsýslu, veitir almenningi aðgengi að upplýsingum um húsnæðismál og mætir grunnþörf hverrar manneskju; að hafa þak yfir höfuðið.​

Að lokum er gengið út frá því að eftirfarandi markmið fléttist sem víðast inn í rekstur stofnunarinnar og verkefni: ​

#13 Markmið um aðgerðir í loftslagsmálum

Það endurspeglast meðal annars í umhverfis- og loftslagsstefnu HMS, framtíðarsýn stofnunarinnar um að stuðla að því að minnka vistspor byggingariðnaðarins, innleiðingu Grænna skrefa og samstarfsverkefninu Byggjum grænni framtíð.