Um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Umhverfis- og loftslagsstefna
Umhverfis- og loftslagsstefna
Haustið 2020 samþykkti stjórn HMS umhverfis- og loftslagsstefnu fyrir stofnunina. Hún tekur á samdrætti í kolefnislosun og umhverfisáhrifum frá starfsemi HMS, kolefnisjöfnun og áhrifum á vistvæna þróun innan mannvirkjageirans.
Hér fyrir neðan má lesa umhverfis- og loftlagsstefnu HMS:
Tilgangur og umfang
Tilgangur með umhverfis- og loftslagsstefnu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) er að draga markvisst úr kolefnislosun og öðrum óæskilegum umhverfisáhrifum sem stafar af starfsemi stofnunarinnar, hafa jákvæð áhrif á vistvæna þróun helstu hagaðila stofnunarinnar, miðla árangri og hafa þannig bein og óbein áhrif á loftlagsskuldbindingar landsins. Stefnan á við um alla starfsemi HMS.
Umhverfis- og loftlagsstefna HMS
Rekstri HMS skal hagað þannig að hann falli að sjónarmiðum umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar og valdi sem minnstri kolefnislosun og álagi á auðlindir og umhverfi.
Fram til ársins 2030 mun HMS draga úr kolefnislosun á ársverk um 40% miðað við árið 2019 vegna eftirfarandi þátta:
Draga úr kolefnislosun vegna | Mælikvarðar | Dæmi um aðgerðir |
---|---|---|
Flugferða og aksturs á vegum HMS | Kolefnislosun vegna: Flugferða starfsmanna innanlands og erlendis, Akstur á bifreiðum stofnunar, Aksturs á bílaleigu- og leigubílum | Aukin áhersla á fjarfundi |
Lífræns og blandaðs úrgangs | Kolefnislosun vegna: Lífræns úrgangs, Blandaðs úrgangs | Vistvæn innkaup, Minni sóun, Betri flokkun |
Notkunar á rafmagni og heitu vatni | Kolefnislosun vegna notkunar á: Rafmagni, Heitu vatni | Orkusparnaðaraðgerðir |
Frá og með árinu 2020 mun HMS jafna þá kolefnislosun sem sýnt þykir að rekstur stofnunarinnar leiðir af sér og meira til.
Frá og með árinu 2020 mun HMS draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum vegna eftirfarandi þátta:
Draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum vegna | Mælikvarðar | Dæmi um aðgerðir |
---|---|---|
Úrgangs sem fellur til | Heildarmagn úrgangs sem fellur til á stöðugildi, Endurvinnsluhlutfall | Vistvæn innkaup, Minni sóun, Fræðsla, Betri flokkun |
Ferða starfsmanna til og frá vinnu | Hlutfall starfsmanna sem eru með samgöngusaminga | Stuðningur við vistvænar samgöngur, Fræðsla |
Innkaupa á pappír og prentþjónustu | Magn skrifstofupappírs sem stofnunin kaupir, Pappírsnotkun á stöðugildi | Minni sóun, Innkaup á umhverfisvottuðum pappír og prentþjónustu |
Innkaupa á hreinsiefnum og ræstiþjónustu | Hlutfall umhverfisvottaðra ræsti- og hreinsiefna sem stofnunin kaupir, Hlutfall umhverfisvottaðrar ræstiþjónustu sem stofnunin kaupir | Innkaup á umhverfisvottuðum hreinsefnum og ræstiþjónustu |
HMS mun jafnframt leggja sitt af mörkum til að efla vistvæna þróun innan íslenska húsnæðis- og mannvirkjageirans í gegnum einstök verkefni í starfsemi HMS.
Framtíðarsýn 2030
HMS hefur dregið úr kolefnislosun á ársverk um 40% miðað við árið 2019 og bundið meira kolefni en stofnunin hefur losað, frá og með 2020. Enn fremur hefur stofnunin dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum af rekstri sínum frá og með sama ári. Þá hefur HMS stuðlað að samdrætti í kolefnislosun hjá húsnæðis- og mannvirkjageiranum á Íslandi.
Áherslur HMS í umhverfis- og loftslagsmálum skv. aðgerðaáætlun um vistvæn skref HMS frá 2020 til 2023
Fyrsta tímabil umhverfis- og loftslagsstefnu HMS nær yfir árin 2020 til 2023. Fyrir liggur tímasett aðgerðaáætlun um vistvæn skref HMS á því tímabili þar sem fram koma m.a. mælanleg markmið og skilgreindar aðgerðir. Í aðgerðaráætluninni koma enn fremur fram helstu áherslur HMS í umhverfis- og loftslagsmálum frá 2020 til 2023, en þær eru eftirfarandi:
- Innleiða öll fimm skrefin í Grænu skrefunum og viðhalda þeim.
- Stunda vistvænni innkaup.
- Bæta flokkun og draga úr úrgangsmyndun og kolefnislosun vegna úrgangs.
- Draga úr kolefnislosun vegna samgangna.
- Huga að orkusparnaði og draga úr kolefnislosun vegna orkunotkunar.
- Kolefnisjafna losun HMS með ábyrgum hætti.
- Fræða starfsfólk um innra umhverfisstarf og önnur umhverfismál.
- Stuðla að aukinni umhverfisvitund í samfélaginu varðandi byggingaframkvæmdir og mannvirkjagerð.
Eftirfylgni og árangur
Stefnunni er fylgt eftir með innleiðingu Grænna skrefa í ríkisrekstri, sem hófst hjá HMS í mars 2020, og áðurnefndrar aðgerðaráætlunar um vistvæn skref HMS frá 2020 til 2023.
Árangursmælingar verða gerðar í gegnum Grænt bókhald HMS þar sem upplýsingum um samgöngur, úrgangsmyndun, orkunotkun, neyslu og kolefnislosun frá starfsemi HMS er safnað saman.
Fyrir 1. apríl ár hvert er Grænt bókhald fyrra árs tekið saman og því skilað í Gagnagátt Umhverfisstofnunar. Teymi fjármála og bókhalds sér um að taka bókhaldið saman í samstarfi við teymi innri þjónustu.
Niðurstöðum Græns bókhalds og árangri umhverfis- og loftslagsstefnu er miðlað til samfélagsins á vef HMS. Einnig birtast niðurstöður Græns bókhalds á heimasíðu Grænna skrefa ásamt niðurstöðum annarra ríkisstofnana. Þær verða m.a. nýttar til að greina úrbótartækifæri, sýna fram á gagnsemi stefnunnar og halda starfsfólki upplýstu um hvernig miðar við framkvæmd hennar.
Svið mannvirkja og sjálfbærni heldur sérstaklega utan um þær aðgerðir sem eru til þess fallnar að efla vistvæna þróun meðal helstu hagaðila HMS hverju sinni.
Tenging við skuldbindingar og viðmið
HMS setur sér þessa umhverfis- og loftslagsstefnu í samræmi við ákvæði 1. mgr. 5. gr. c. laga nr. 70/2012, um loftslagsmál. Aðgerðir vegna hennar taka einnig mið af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt er stuðst við uppfærða aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um loftslagsstefnur opinberra aðila og Græn skref í ríkisrekstri.
Ábyrgð og rýni
Forstjóri HMS ber ábyrgð á að farið sé eftir umhverfis- og loftslagsstefnunni og gildandi aðgerðaáætlun hverju sinni. Enn fremur að stefnunni og aðgerðaráætlun sé viðhaldið, þær séu rýndar og endurskoðaðar árlega af stjórn HMS, þegar niðurstöður Græns bókhalds liggja fyrir.