Um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Starfsemi
Starfsemi
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) er sjálfstæð stofnun sem lýtur sérstakri stjórn og heyrir stjórnarfarslega undir innviðaráðherra. Stofnunin starfar að stjórnsýsluverkefnum á sviði húsnæðismála, mannvirkjamála, rafmagnsöryggismála og brunavarna, fer með samhæfingarhlutverk opinberrar markaðsgæslu, og rekur fasteignaskrá ásamt því að sinna verkefnum því tengdu.
Hlutverk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
- Að tryggja réttleika skráningar fasteigna og stuðla að því að grunnkröfur um mannvirki séu uppfylltar og kolefnisspor minnkað.
- Að stuðla að samhæfingu og virku eftirliti með framkvæmd brunavarna, mannvirkjagerð, rafmagnsöryggis og markaðsgæslu vara.
- Að tryggja húsnæðisöryggi með því að auka aðgengi almennings að viðunandi húsnæði með viðráðanlegan húsnæðiskostnað, hvort sem er til eignar eða leigu.
- Að stuðla að stöðugleika og virkni á húsnæðismarkaði með greiningum á íbúðaþörf, birtingu rauntímaupplýsinga og áreiðanlegu fasteigna- og brunabótamati.
Framtíðarsýn HMS til ársins 2026 er að:
- Að vera leiðandi í opinberri þjónustu, stafrænum lausnum, miðlun upplýsinga, samstarfi og nýsköpun á öllum málefnasviðum.
- Að auka sjálfbæra þróun með því að efla rannsóknir, tryggja rekjanleika í mannvirkjagerð, virkja hringrásarhagkerfið og fjölga grænum hvötum.
HMS ber lögum samkvæmt ábyrgð á að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði, meðal annars með húsnæðisstuðningi, lánveitingum, rannsóknum, upplýsingagjöf, áætlanagerð og eftirliti. Mikilvægur hluti af starfsemi HMS er að sinna stjórnsýslu húsnæðis- og mannvirkjamála í samstarfi við sveitarfélög og stuðla að fyrirsjáanleika, skilvirkni og gæðum mannvirkjagerðar. Einnig leitast stofnunin við að tryggja að almenningur hafi aðgang að öruggu og vistvænu húsnæði á viðráðanlegu verði og í samræmi við þarfir hvers og eins, óháð efnahag og búsetu.
HMS sér einnig um Húsnæðissjóð sem er í eigu og á ábyrgð ríkissjóðs og hefur það hlutverk að fjármagna lánveitingar á samfélagslegum forsendum. Dótturfélag HMS, Leigufélagið Bríet, var stofnað árið 2019 og starfar undir sjálfstæðri stjórn með það að markmiði að stuðla að heilbrigðum og hagkvæmum leigumarkaði á landsbyggðinni. Stefna félagsins er að rekstur þess verði sjálfbær og að félagið sé alltaf rekið án hagnaðarsjónarmiða.
Með yfirstjórn HMS fer fimm manna stjórn sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. HMS rekur þrjár starfsstöðvar sem staðsettar eru í Reykjavík, Sauðárkróki og Akureyri og hefur stjórn stofnunarinnar frá upphafi lagt mikla áherslu á að efla og styrkja starfsemi hennar á Norðvesturlandi.
HMS starfar eftir 18 lagabálkum og 42 reglugerðum á 20 málefnasviðum. Skipta má hlutverkum stofnunarinnar í tíu málaflokka sem taldir eru upp hér að neðan.