Græn skref HMS

Árið 2021 losaði HMS 29,8 tonn af koltvísýringi vegna samgangna, orkunýtingar og úrgangs, sem er 29% samdráttur frá 2019 en örlítil aukning frá 2020.

HMS hefur sett sér það markmið að fram til ársins 2030 muni stofnunin draga úr kolefnislosun um 40% miðað við árið 2019.

Í mars 2020 skráði HMS sig til leiks í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri, sem rekið er á vegum Umhverfisstofnunar. Í verkefninu eru um 170 vistvænar aðgerðir framkvæmdar í fimm skrefum en stefnt er að því að HMS ljúki þeim öllum á fyrri hluta árs 2022. 

Nú þegur hefur HMS meðal annars unnið að bættri sorpflokkun, minnkað sóun, takmarkað notkun á plasti og einnota hlutum, hugað að betri orkunýtingu, lagt áherslu á umhverfisvænar samgöngur og innleitt vistvænni innkaup. ​HMS hefur einnig innleitt Grænt bókhald en þar eru teknar saman upplýsingar um innkaup stofnunarinnar á pappír, hreinlætisvörum, orku og öðrum rekstrarvörum og -þjónustu. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna á vegum HMS eru einnig færðar inn í bókhaldið. 

Með því að fylgjast með losun og eðli innkaupa á vöru og þjónustu vegna starfseminnar, getur HMS sett sér mælanleg markmið um minni sóun, vistvænni innkaup og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Að sama skapi verður auðveldara að fara í aðgerðir til að minnka neikvæð umhverfisáhrif HMS. Enn fremur fær stofnunin tækifæri til að kolefnisjafna þá losun sem ekki næst að koma í veg fyrir og skoða árangurinn í samanburði við aðrar stofnanir sem taka þátt í verkefninu.​

Kolefnislosun HMS 2019-2021

Heildarlosun HMS nam um 29,8 tonnum á árinu 2021, sem er aðeins meira en á árinu 2020 en 29% minni en 2019.

Losun vegna aksturs hefur aukist með hverju ári síðan 2019, sem skýrist til dæmis með auknu eftirliti brunasviðs um allt land. Þessar upplýsingar hjálpa HMS að fara í markvissar aðgerðir til að sporna við þessari þróun.

Á sama tíma hefur endurvinnsluhlutfall úrgangs aukist úr 63% í 85,7%, fjöldi samgöngusamninga tæplega tvöfaldast og raforkunotkun minnkað.

Nánar er fjallað um innleiðingu umhverfis- og loftslagsstefnu HMS í umhverfisskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2021.

Kolefnisjöfnun vegna losunar 2019-2021

HMS hefur kolefnisjafnað þá losun sem stafaði af starfsemi stofnunarinnar á árunum 2019-2021 og meira til, með gróðursetningu trjáa í samvinnu við Sólheima. Öll þeirra ræktun er lífræn og Tún-vottuð. Auk kolefnisjöfnunarinnar skapar þátttakan í verkefninu mikilvæg störf fyrir íbúa Sólheima.