20. ágúst 2025
20. ágúst 2025
Vísitala leiguverðs hækkaði um 1,38 prósent í júlí 2025
- Vísitala leiguverðs hækkaði á milli mánaða í júlí og mældist 124,5 stig
- Vísitalan hækkaði um 5,15 prósent á milli júlímánaða 2024 og 2025, á meðan verðbólga mældist 4 prósent á sama tímabili
- Hægt hefur á raunhækkun vísitölu leiguverðs síðustu mánuði og nam 12 mánaða raunhækkun hennar 1,1 prósent í júlí
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 124,5 stig og hækkaði um 1,38 prósent á milli mánaða í júlí. Vísitalan hækkaði um 5,15 prósent á milli júlímánaða 2024 og 2025, á sama tíma og verðbólga mældist 4 prósent og vísitala íbúðaverðs hækkaði um 4,2 prósent.
Hægst hefur á tólf mánaða hækkun vísitölu leiguverðs á síðustu mánuðum, en vísitalan hækkaði um 5,77 prósent á milli júnímánaða 2024 og 2025. Í maí nam tólf mánaða hækkun vísitölunnar 8,8 prósentum.
Hægt er að nálgast mælaborð fyrir vísitölur HMS með því að smella á hnappinn hér að neðan.
Mælaborð fyrir vísitölur HMS
Á meðfylgjandi mynd má sjá mánaðarlega breytingu á vísitölu leiguverðs ásamt gildum hennar síðustu 12 mánuði.
Vísitala leiguverðs byggir á vegnu meðaltali leiguverðs á fermetra hjá hefðbundnum íbúðum í eigu einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga. Niðurstöður eru vegnar saman með veltu íbúða með sama herbergjafjölda á síðustu 12 mánuðum. Stuðst er við leigusamninga síðastliðinna tveggja mánaða við útreikning vísitölunnar, svo júlígildi hennar tekur mið af leigusamningum í júní og júlí.
Raunverðshækkun leiguverðs á ársgrundvelli á niðurleið
Raunverðshækkun vísitölu leiguverðs á ársgrundvelli nam 1,1 prósenti í júlí en til samanburðar hækkaði leiguverð um 1,5 prósent að raunvirði í júní og 4,9 prósent í maí. Myndin hér að neðan sýnir raunverðsþróun vísitölu leiguverðs en á síðustu mánuðum hafa raunverðshækkanir leiguverðs á ársgrundvelli verið á niðurleið. Tólf mánaða breyting vísitölunnar á föstu verðlagi hefur ekki verið lægri í um það bil tvö ár.
Hægt er að nálgast upplýsingar um leigusamninga í leiguverðsjá HMS, en hana má nálgast með því að smella á þennan hlekk.