20. ágúst 2025
20. ágúst 2025
33 umsóknir um hlutdeildarlán í ágúst 2025
- Andvirði umsókna um hlutdeildarlán nam um 513 milljónum króna, en 333 milljónir króna eru til úthlutunar
- 28 umsóknir að andvirði 429 milljóna króna eru með samþykkt kauptilboð
- Aðeins 4 umsóknir bárust að þessu sinni vegna kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins
Alls bárust HMS 33 umsóknir um hlutdeildarlán í ágúst að andvirði um 513 milljónum króna, en 333 milljónir króna eru til úthlutunar fyrir tímabilið. HMS vinnur að yfirferð umsókna og stefnt er að ljúka afgreiðslu þeirra síðari hluta næstu viku.
Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa til boða fyrir fyrstu kaupendur og þeirra sem ekki hafa átt íbúð síðastliðin fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Í forgangi eru umsóknir þar sem staðfest kauptilboð liggur fyrir, auk þess sem miða skal við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20% veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.
Mikill meirihluti umsókna vegna kaupa á höfuðborgarsvæðinu
Í ágúst voru 85% umsókna með samþykkt kauptilboð, en aðeins fjórar umsóknir bárust vegna kaupa á eign utan höfuðborgarsvæðisins. Hlutfall umsókna utan höfuðborgarsvæðisins fer því úr rúmlega þriðjungi við síðustu úthlutun í um 12% að þessu sinni.
Opnað verður að nýju fyrir umsóknir þann 2. september næstkomandi. Nánari upplýsingar um hlutdeildarlán og umsóknarferlið má finna á Ísland.is