18. ágúst 2025
19. ágúst 2025
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,27 prósent á milli mánaða í júlí 2025
- Vísitala íbúðaverðs mældist 111,7 stig í júlí og hækkaði um 0,27 prósent á milli mánaða
- Áfram hægist á raunverðshækkun vísitölu íbúðaverðs sem mælist nú 0,18 prósent undanfarna tólf mánuði
- Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði lítillega að raunvirði milli júlímánaða 2024 og 2025, í fyrsta skipti síðan í mars 2024
Vísitala íbúðaverðs mældist 111,7 stig í júlí og hækkaði um 0,27 prósent á milli mánaða. Á undanförnum tólf mánuðum hefur vísitalan hækkað um 4,2 prósent, á sama tíma og verðbólga mældist 4 prósent.
Áfram hægist því á raunverðshækkun íbúðaverðs sem er þó enn jákvæð og mælist nú 0,18 prósent samanborið við 0,52 prósent í júní og 1,87 prósent í maí.
Á mynd hér að neðan má sjá mánaðarbreytingu vísitölu íbúðaverðs á síðustu mánuðum.
Taflan hér að neðan sýnir vísitöluna, ásamt mánaðarhækkun hennar og 12 mánaða hækkun, auk fjögurra undirvísitalna fjölbýlis og sérbýlis á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.
Vísitala íbúðaverðs fyrir júlí 2025
Vísitala | Gildi | Breyting á milli mánaða | 12 mánaða breyting |
---|---|---|---|
Íbúðaverð | 111,7 | 0,27% | 4,2% |
Sérbýli á hbs. | 111,8 | -0,53% | 4,39% |
Sérbýli á landsbyggð | 115,3 | 1,50% | 5,97% |
Fjölbýli á hbs. | 109,6 | 0,37% | 3,40% |
Fjölbýli á landsbyggð | 113,1 | -0,26% | 1,98% |
Íbúðaverð lækkaði lítillega að raunvirði á höfuðborgarsvæðinu
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu stóð í stað milli mánaða. Að raunvirði hefur íbúðaverð því lækkað um 0,16 prósent á síðastliðnum tólf mánuðum, en ársbreytingin mælist nú neikvæð í fyrsta skipti síðan í mars 2024. Munar þar mestu um fjölbýlisíbúðir sem hafa lækkað um 0,59 prósent að raunvirði á sama tíma og sérbýlisíbúðir hækkuðum um 0,36 prósent.
Á landsbyggðinni mælist tólf mánaða raunbreyting vísitölu íbúðaverðs 0,80 prósent. Þar af hafa fjölbýlisíbúðir lækkað um 1,95 prósent á sama tíma og sérbýlisíbúðir hafa hækkað um 1,89 prósent.
Mælaborð fyrir vísitölur HMS
Mælaborð fyrir vísitölur HMS um íbúða- og leiguverð er aðgengilegt á vef HMS. Þar er hægt að nálgast þróun vísitölu íbúðaverðs, ásamt vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggð.
Einnig sýnir mælaborðið undirvísitölur íbúðaverðs og eldri vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir tímabilið 1994-2024 sem var birt á vef Fasteignaskrár, auk sameiginlegrar vísitölu, sem er byggð á eldri vísitölum íbúðaverðs fyrir tímabilið 1981-2024 og nýrri vísitölu íbúðaverðs og tekur gildið 100 í janúar 2024.