25. júlí 2025

Sífellt meiri kaupendamarkaður að mati fasteignasala

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Um 65 prósent fasteignasala telja virkni fasteignamarkaðarins vera frekar litla eða mjög litla miðað við árstíma
  • Fasteignasalar telja í auknum mæli algengt að verð sé lækkað í söluferli
  • Lítið selst af nýjum íbúðum um þessar mundir

HMS framkvæmdi þriðju mánaðarlegu spurningakönnunina á meðal fasteignasala þann 2. júlí síðastliðinn, en í könnuninni er spurt um viðhorf fasteignasala til fasteignamarkaðarins. Könnunin var send á félagsmenn Félags fasteignasala, en þeir eru um 330 talsins. Alls bárust 99 svör í þetta skiptið sem samsvarar 30 prósent svarhlutfalli. Langflestir svarendur, eða 94 prósent, miðla aðallega fasteignum á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess.

Fasteignasalar telja umsvif á fasteignamarkaði vera fremur lítil miðað við árstíma en 65 prósent svarenda telja virkni markaðarins vera frekar litla eða mjög litla. Jafnframt eru flestir fasteignasalar á þeirri skoðun að markaðurinn sé á valdi kaupenda, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Frá fyrstu mælingu í maí hefur markaðurinn þróast í átt að því að verða sífellt meiri kaupendamarkaður að mati fasteignasala.

Fasteignasalar telja verðþróun á fasteignamarkaði almennt tiltölulega stöðuga um þessar mundir en svara því jafnframt að verð á eignum til sölu sé iðulega lækkað á meðan á söluferlinu stendur. Vísar það ýmist til þess að eignir séu seldar undir ásettu verði eða að ásett verð sé lækkað á meðan eign er á söluskrá.

Líkt og sjá má á mynd hér að neðan telja fasteignasalar í auknum mæli algengt að verð sé lækkað í söluferli, en hafa ber í huga að könnunin hefur einungis verið lögð fyrir fasteignasala þrisvar sinnum hingað til.

Lít­ið keypt af nýj­um íbúð­um

Alls vörðuðu 665 kaupsamningar í maí íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og af þeim voru 74 um nýjar íbúðir eða 11,1 prósent. Um 1.400 nýjar íbúðir voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu í upphafi júlímánaðar og hafa þær ekki verið fleiri frá upphafi mælinga 2018. Um 45 prósent íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu eru nýjar, en hlutdeild nýrra íbúða í framboði er um 36 prósent í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og um 20 prósent annars staðar á landsbyggðinni. Íbúð telst vera ný ef byggingarár er innan við tveimur árum frá útgáfudegi kaupsamnings.

Úr nýjustu mánaðarskýrslu HMS sem kom út í síðustu viku má lesa að 61 prósent líkur eru á að lítil og ódýr íbúð sem er notuð seljist innan 60 daga á höfuðborgarsvæðinu. Til samanburðar eru aðeins 26 prósent líkur á að lítil og ódýr íbúð sem er ný seljist á jafn löngum tíma. Um er að ræða niðurstöður tvíkosta aðhvarfsgreiningar sem HMS framkvæmdi til að reyna að aðgreina áhrif mismunandi þátta, svo sem stærðar, verðs og hvort um sé að ræða nýbyggingu eða ekki, á líkurnar á að eign seljist á innan við 60 dögum.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS