14. ágúst 2025
14. ágúst 2025
Fjöldi fullbúinna íbúða tekur stökk í júlí
- Fullbúnum íbúðum fjölgaði hratt í júlí
- Íbúðum í byggingu fer áfram fækkandi
- Meðalstærð íbúða sem er í byggingu í fjölbýli er 97 fermetrar
Samkvæmt mælaborði íbúða í byggingu eru nú samtals 5.479 íbúðir skráðar í byggingu um allt land. Einnig hafa verið gefin út byggingarleyfi eða skráð samþykkt byggingaráform fyrir 1.244 íbúðir, en framkvæmdir við þær eru ekki hafnar.
Það sem af er ári hefur verið lokið við byggingu á 2.063 íbúðum sem er um 6% fleiri en á sama tíma í fyrra. Um 60% fullbúinna íbúða á árinu eru á höfuðborgarsvæðinu, 16% á Suðurlandi, 8% á Suðurnesjum og 7% á Norðurlandi eystra.
Fáar nýjar framkvæmdir fóru af stað í júlí
Í júlí voru 369 íbúðir fullkláraðar og hefur fjöldi íbúða sem verða fullbúnar í hverjum mánuði aukist tvo mánuði í röð. Á sama tíma hefur heildarfjöldi íbúða í byggingu dregist saman frá mánuði til mánaðar. Framkvæmdir hefjast því ekki með sama hraða og þeim lýkur.
Þá hafa byggingaráform aukist lítillega. Byggingaráform segja hins vegar ekki endilega til um að framkvæmdir séu yfirvofandi á næstunni. Þau geta staðið óhreyfð um hríð, en gefa vísbendingu hvers gæti verið að vænta.
Hvernig íbúðir er verið að byggja?
Af íbúðum í byggingu eru um 78% þeirra fjölbýlishús og algengasta gerð þeirra íbúða er tveggja svefnherbergja íbúðir sem eru 80-100 fermetrar að stærð. Fyrir eins svefnherbergja íbúðir er algengast að þær séu 50-70 fermetrar og fyrir þriggja svefnherbergja íbúðir er 90-110 fermetrar algengasta stærðin.
Tveggja svefnherbergja íbúðir mynda 39% af öllum íbúðum í byggingu,, þriggja svefnherbergja 26%, fjögurra svefnherbergja 7% og stúdíóíbúðir 2%. Þá eru 5,5% allra íbúða með fimm eða fleiri svefnherbergi. Meðalstærð íbúða sem eru í byggingu í fjölbýli er 97 fermetrar og einbýlis- og sérbýlisíbúða 162 fermetrar.
Septembertalning HMS
HMS fylgist reglulega með framvindu íbúðauppbyggingar og uppfærir matsstig íbúða í samræmi við raunstöðu þeirra í framkvæmdarferlinu. Matsstig íbúða sýna framvindu byggingarferlisins, allt frá útgáfu byggingarleyfis til fullgerðrar íbúðar.
HMS stendur fyrir talningu íbúða í byggingu á landinu öllu í mars og september ár hvert. Í talningunni er farið um öll byggingarsvæði landsins og lagt mat á framvindu hverrar íbúðar. Septembertalning HMS hefst í næstu viku og stendur til að kynna niðurstöður hennar á opnum kynningarfundi þann 22. september næstkomandi.