15. ágúst 2025
15. ágúst 2025
Framkvæmdir hafnar við fjölbýlishús fyrir tekju- og eignaminni á Hvammstanga
Brák íbúðafélag hefur hafið framkvæmdir á íbúðum í nýju tveggja hæða fjölbýlishúsi á Hvammstanga sem ætlaðar eru til leigu fyrir tekju- og eignaminni fjölskyldur. Í húsinu verða alls tíu íbúðir þar sem átta þeirra eru fjármagnaðar með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélagi sem í þessu tilfelli er Húnaþing vestra.
Íbúðirnar eru fimm á hvorri hæð og eru á stærðarbilinu 58 til 95 fermetrar. Um er að ræða tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðir sem henta fjölskyldum með mismunandi þarfir. Húsið verður byggt úr forsmíðuðum timbureiningum og mun standa á steyptum grunni. Á lóðinni verður einnig útigeymsla sem nýtist m.a. fyrir hjól og barnavagna.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir taki um 14 mánuði frá fyrstu skóflustungu og ættu íbúðirnar þannig að vera tilbúnar til útleigu haustið 2026.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, fagnar verkefninu og telur það mikilvægan þátt í uppbyggingu húsnæðisöryggis í sveitarfélaginu:
„Um árabil hefur skortur á leiguhúsnæði verið áskorun í Húnaþingi vestra. Samstarfið við Brák er því kærkomið og í samræmi við húsnæðisáætlun sveitarfélagsins. Brák er traust félag sem er rekið án hagnaðarsjónarmiða og leggur áherslu á öruggt og hagkvæmt leiguhúsnæði, sem var lykilatriði í ákvörðun okkar um að taka þátt í verkefninu með stofnframlögum. Við lítum svo á að með þessu er stigið stórt skref í átt að auknu húsnæðisöryggi fyrir tekju- og eignaminni fjölskyldur.“
Verkefnið er hluti af Tryggð byggð - samstarfsvettvangi um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni.