20. janúar 2025
26. mars 2024
Ný mannvirki munu þurfa lífsferilsgreiningu frá september 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Lífsferilsgreiningar á byggingum verður hluti af byggingarreglugerð þar sem mælt verður kolefnisspor mannvirkja yfir lífsskeið þeirra
- Leiðbeiningar verða gefnar út og skilagátt fyrir lífsferilgreiningar opnuð á hms.is
- Breytingarnar taka gildi frá og með 1. september 2025 og er aðlögunartímabil formlega hafið þar sem fræðslu verður beint með markvissum hætti að viðeigandi hagaðilum
HMS kynnti í dag breytingu á núverandi byggingarreglugerð um innleiðingu lífsferilsgreiningar (e. Life cycle analysis eða LCA) sem mælir umhverfisáhrif mannvirkja yfir allt lífsskeið þeirra. Breytingarnar fela í sér að frá og með 1. september 2025 verður gerð krafa um gerð lífsferilsgreininga fyrir öll ný byggingarleyfisskyld mannvirki í umfangsflokkum 2 og 3, sbr. 1.3.2. gr. í byggingarreglugerð.
Lífsferilsgreining er aðferð sem notuð er til að meta staðbundin og hnattræn umhverfisáhrif vöru eða þjónustu yfir alla virðiskeðjuna. Þannig er meðal annars tekið tillit til öflunar hráefna, framleiðslu, notkunar og förgunar.
Skila þarf niðurstöðum lífsferilsgreininga til HMS í gegnum rafræna skilagátt, bæði á hönnunarstigi áður en sótt er um byggingarleyfi og á lokastigi áður en lokaúttekt fer fram. FSRE hefur þegar skilað inn fyrstu lífsferilsgreiningunni sem VSÓ Ráðgjöf vann. Á hms.is/lifsferilsgreining má nálgast nánari leiðbeiningar um gerð lífsferilsgreininga. Þar á meðal er einnig hægt að nálgast íslenskt meðaltalsgildi, helstu fyrirspurnir, rafræna skilagátt, yfirlit um helstu hugbúnaði fyrir gerð lífsferilsgreiningar, námskeið og ýmiss konar ítarefni.
Hægt er að senda fyrirspurnir með því að senda tölvupóst á netfangið lca@hms.is og hringja í síma 440-6400.
Breytingin var einkum unnin á grundvelli vinnu starfshóps sem myndaður var til að gera tillögu að samræmdri nálgun við gerð lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar. Starfshópurinn var settur á fót á vegum Byggjum grænni framtíð í ágúst 2022. Í vinnu starfshópsins var litið til þróunar mála á Norðurlöndunum auk þess sem haldnar voru tvær opnar vinnustofur, fjöldi sérfræðinga kallaðir til og umsagna óskað. Tillögur hópsins voru lagðar fram fyrir stýrihóp um endurskoðun á byggingarreglugerð og þær síðan settar í umsagnarferli á Samráðsgátt.
Formlegt aðlögunartímabil hafið til 1. september 2025
Til að stuðla að árangursríkri innleiðingu verður farin sú nýstárlega leið að vera með aðlögunartímabil, áður en til gildistöku kemur. HMS, í samstarfi við Samtök iðnaðarins og fleiri hagaðila, mun stuðla að því að tímabilið verði nýtt með markvissum hætti til að fræða og styðja við hagaðila, þannig að sem flestir hafi fengið reynslu við gerð og skil lífsferilsgreininga áður en skyldan verður að veruleika.
Í þeim anda hafa ýmsar menntastofnanir verið hvattar sérstaklega til að bjóða upp á námskeið um gerð lífsferilsgreininga fyrir byggingar. Að sama skapi hefur verið brýnt fyrir opinberum verkkaupum á borð við FSRE og Reykjavíkurborg að ryðja brautina og vera fyrirmyndir í skilum á lífsferilsgreiningum í rafræna skilagátt HMS.
Með þessum breytingum á byggingarreglugerð og samhliða útgáfu leiðbeininga um gerð lífsferilsgreininga með samræmdum hætti, lýkur formlega aðgerð 5.1.3. í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030. Um er að ræða lykilaðgerð í Byggjum grænni framtíð, samstarfsvettvangi stjórnvalda og atvinnulífs um vistvæna mannvirkjagerð.
Fyrsta afurðin úr vinnunni við heildarendurskoðun á byggingarreglugerð
Athygli vekur að hér er á ferðinni fyrsta afurðin úr vinnunni við heildarendurskoðun á byggingarreglugerð. Krafan um gerð lífsferilsgreinina kemur þó í gegnum breytingar á núverandi byggingarreglugerð, en ekki með setningu nýrrar reglugerðar. Þessi leið var farin til að tefja ekki frekar innleiðingu þessara mikilvægu breytinga, en vinna við aðra málaflokka er enn í gangi. Þessar breytingar munu endurspeglast við útgáfu á endurskoðaðri byggingarreglugerð, þegar heildarmynd þeirrar vinnu liggur fyrir í árslok. Það breytir því þó ekki að nálgun breytinganna var í samræmi við upphaflegar áherslur endurskoðunarvinnunnar.
Einföldun á framsetningu var höfð að leiðarljósi, með virknimiðuðum ákvæðum ásamt leiðbeiningum sem unnar voru með markaðnum. Þá fela breytingarnar í sér svar við áhersluna á sjálfbærni og eru í samræmi við grunnkröfur um mannvirki. Eðli málsins samkvæmt munu þær einnig stuðla að aukinni nýsköpun og neytendavernd.
Einnig er verið að horfa til þess að auka skilvirkni til lengri tíma litið, þar sem innleiðing þessara krafna á að koma í veg fyrir að leysa þurfi stærri og flóknari viðfangsefni í framtíðinni vegna afleiðinga hamfarahlýnunar.
Þess má einnig geta að við setningu ákvæðanna var horft til þess að innleiðing lífsferilsgreininga yrði með skilvirkum hætti, meðal annars með einfaldri nálgun á aðferðafræðinni, útgáfu íslenskra meðaltalsgilda og markvissri fræðsluáætlun á aðlögunartíma áður en ákvæðin taka gildi.
Breytingarnar á byggingarreglugerð voru kynntar á hádegisfundi í húsnæði HMS í Borgartúni 21 þann 26. mars 2024. Upptöku af fundinum má sjá hér að neðan.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS