22. ágúst 2025

Tekið að hægja á íbúðauppbyggingu samhliða hægari fólksfjölgun

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Teikn eru á lofti um að hægari fólksfjölgun muni draga úr íbúðaþörf í ár
  • Færri nýjar íbúðir komu inn á markað á fyrri hluta þessa árs samanborið við fyrri hluta árs 2024 og 2023.
  • Enn er íbúðaskuld til staðar sem safnaðist aðallega upp á árunum 2017 til 2019 þegar uppbygging íbúða náði ekki að halda í við fjölgun íbúa

Undanfarin ár hefur mikil fólksfjölgun verið drifin áfram af aðflutningi erlendra ríkisborgara. Hægst hefur á þessari þróun en aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta voru aðeins 1.700 á fyrri hluta þessa árs, samanborið við 2.380 á sama tíma í fyrra og 3.900 árið þar áður.

Á öðrum ársfjórðungi voru aðfluttir umfram brottflutta í heildina 1.350, sem eru talsvert fleiri en á fyrsta ársfjórðungi þegar þeir voru 190, en þó ekki margir miðað við annan ársfjórðung í sögulegu samhengi. Síðast voru aðfluttir umfram brottflutta færri á öðrum ársfjórðungi árið 2021.

Aðfluttir umfram brottflutta eftir ársfjórðungum

Út frá nýjustu mælingu Hagstofu og árstíðarmynstri fyrri ára má gera ráð fyrir því að íbúum fjölgi um u.þ.b. 5.500 manns í ár, eða um 1,4% af núverandi íbúafjölda. Lágspá í mannfjöldaspá Hagstofu gerir hins vegar ráð fyrir um 1,8% fjölgun. Ef fram heldur sem horfir og fjölgun íbúa verður hægari en gert var ráð fyrir mun það, að öðru óbreyttu, koma til með að draga úr íbúðaþörf í ár.

Íbúðaskuld hefur myndast á síðustu árum, þar sem fjölgun íbúða hefur ekki haldið í við fjölgun fullorðinna einstaklinga. 

Á meðfylgjandi mynd, sem tekin er úr nýjustu mánaðarskýrslu HMS, er borin saman íbúðauppbygging og fólksfjölgun frá árinu 2006 ásamt spá fyrir árin 2025 til 2027. Árin 2006 og fram að efnahagshruni 2008 einkenndust af mikilli íbúðauppbyggingu og talsverðri mannfjölgun. Á árunum 2009 til 2011 fækkaði svo íbúum landsins hratt, auk þess sem íbúðauppbygging dróst saman. Íbúum og íbúðum fjölgaði svo með stöðugum hætti næstu árin.

Íbúðauppbygging og mannfjöldi

Frá árinu 2015 hefur íbúðaskuld myndast, en líkt og myndin hér að ofan sýnir fjölgaði íbúðum ekki í takt við fjölgun fullorðinna íbúa árin 2017-2019 og 2022-2024. Á tímabilinu 2015-2024 fjölgaði fullorðnum einstaklingum um 22 prósent, á meðan fullbúnum íbúðum fjölgaði um 19 prósent.

Mögulegt er að íbúðaskuldin gæti minnkað í ár, en HMS spáði því í mars að margar íbúðir geti orðið fullbúnar í ár á meðan rauntölur sýna að hægt hefur á fólksfjölgun.

Þó er mikil óvissa um bæði fólksfjölgun og íbúðauppbyggingu næstu ára. Hagstofa gerir enn ráð fyrir töluverðri fólksfjölgun á árunum 2025-2027 og nýjustu tölur af byggingarmarkaðnum gefa til kynna að farið sé að hægja á uppbyggingu íbúða.

Á öðrum fjórðungi þessa árs komu 703 nýjar íbúðir á markað, samanborið við 830 á sama tíma í fyrra og 848 á öðrum ársfjórðungi 2023. Á fyrri hluta þessa árs komu því 1.483 nýjar íbúðir á markað samanborið við 1.599 og 1.624 á fyrri hluta áranna 2024 og 2023.

Fjöldi fullbúinna íbúða eftir ársfjórðungum

Spá um hversu margar íbúðir munu koma fullbúnar inn á markaðinn í ár, 2026 og 2027 er byggð á talningu HMS á fjölda íbúða í byggingu frá því í mars á þessu ári. Líkt og fram kemur í frétt HMS hófst septembertalning í þessari viku og til stendur að kynna niðurstöður nýrrar íbúðatalningar á opnum kynningarfundi 23. september næstkomandi.

Ef umfang íbúðauppbyggingar helst óbreytt á seinni helmingi þessa árs og mannfjöldaspá Hagstofu rætist má búast við að íbúðaskuldin aukist á næstu tveimur árum. HMS mun fylgjast náið með stöðu íbúðauppbyggingar og fólksfjölgunar í haust til að meta óuppfyllta íbúðaþörf á markaði.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS