21. ágúst 2025

Mánaðarskýrsla HMS ágúst 2025

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Mánaðarskýrsla HMS fyrir ágúst 2025 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að á fasteignamarkaði hafi íbúðaverð hækkað í takt við verðlag síðustu tólf mánuði og að nýjar íbúðir seljist sjaldan á undirverði þrátt fyrir dræma sölu. Í skýrslunni kemur einnig fram að áhrif hærri húsnæðisbóta á leigumarkaði séu horfin vegna leiguverðshækkana.

Mánaðarskýrsla HMS

Myndir að baki mánaðarskýrslu

Íbúða­verð hef­ur hækk­að í takt við verð­lag síð­ustu 12 mán­uði

Á fasteignamarkaði er eftirspurn í takt við meðaltal síðustu ára, á meðan framboð er mikið í sögulegu samhengi. Íbúðaverð hefur hækkað í takt við verðbólgu á síðustu 12 mánuðum, en á höfuðborgarsvæðinu lækkaði það lítillega að raunvirði á milli júlímánaða 2024 og 2025.

Á höfuðborgarsvæðinu er áberandi munur á markaði fyrir notaðar íbúðir og nýjar þar sem kaupsamningar um nýjar íbúðir á fyrri hluta ársins voru 40% færri en á sama tíma í fyrra á meðan markaður fyrir notaðar íbúðir hefur verið í meira jafnvægi.

Þrátt fyrir dræma sölu seljast nýjar íbúðir sjaldan á undirverði, en um 38 prósent nýrra íbúða seldust undir auglýstu söluverði í júní og er það ekki frábrugðið fyrri árum. Frá áramótum hefur þó færst í aukana að verð sé lækkað á auglýstum íbúðum í nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu.

Fjöldi verðlækkana á nýjum íbúðum á söluskrá svipar nú til þess sem þekktist á árinu 2023 þegar vaxtahækkunarferli Seðlabankans var í fullum gangi, kaupsamningum fækkaði og fasteignaverð lækkaði lítillega að raunvirði.

Áhrif hærri hús­næð­is­bóta horf­in vegna leigu­verðs­hækk­ana

Leigumarkaðurinn er virkur, en um nýir 1.700 leigusamningar tóku gildi í leiguskrá HMS í júlí. Áhrifin af hækkun húsnæðisbóta í júní 2024 eru nú að mestu leyti gengin til baka, þar sem leiguverð hefur hækkað álíka mikið og húsnæðisbæturnar. Meðalleigufjárhæð allra heimila sem þiggja húsnæðisbætur hefur hækkað um rúmar 20 þúsund krónur milli júlímánaða 2024 og 2025, eða um 10,8%.

Nettó óverð­tryggð lán­taka nálg­ast núllið í fyrsta skipt­ið í tvö ár

Á lánamarkaði hafa hrein ný íbúðalán til heimila aukist, sér í lagi óverðtryggð húsnæðislán. Umfang nýrra íbúðalána er þó enn töluvert undir því sem það var áður en vaxtahækkunarferli Seðlabankans hófst árið 2022.

Tek­ið að hægja á íbúða­upp­bygg­ingu sam­hliða hæg­ari fólks­fjölg­un

Á byggingarmarkaði eru teikn um að hægari fólksfjölgun muni draga úr íbúðaþörf í ár, en enn er íbúðaskuld sem safnaðist aðallega upp á árunum 2017 til 2019 þegar uppbygging íbúða náði ekki að halda í við fjölgun íbúa. Vísbendingar eru um að farið sé að hægja á íbúðauppbyggingu en færri íbúðir komu nýjar inn á markað á fyrri hluta þessa árs samanborið við fyrri hluta árs 2024 og 2023.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS