Hvað eru stofnframlög ríkis og sveitarfélaga?

Stofnframlög eru húsnæðisstuðningur í formi eiginfjár sem veitt eru annars vegar fyrir hönd ríkisins í gegnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og hins vegar frá viðkomandi sveitarfélagi þar sem almennar íbúðir eru staðsettar. Stofnframlög eru veitt til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði með það að markmiði að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur og kallast íbúðirnar almennar íbúðir.

HMS fer með úthlutun stofnframlags ríkisins sem nemur 18% af stofnvirði almennra íbúða, það er kostnaði við byggingu íbúða eða kaup á þeim. Við það bætist stofnframlag þess sveitarfélags þar sem almennar íbúðir eru staðsettar, en það nemur 12% af stofnvirði íbúðanna. Einnig er heimilt að veita tvenns konar viðbótarframlög ríkisins.

  • Annars vegar er heimilt að veita allt að 4% viðbótarframlag vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og vegna íbúðarhúsnæðis sem ætlað er námsmönnum eða öryrkjum. Með íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélags er átt við íbúðarhúsnæði sem sveitarfélög úthluta á grundvelli laga nr.  40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.
  • Hins vegar er heimilt að veita sérstakt byggðaframlag frá ríkinu til viðbótar öðrum stofnframlögum vegna byggingar almennra íbúða á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki vegna misvægis milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis.

HMS metur þörf fyrir og ákvarðar fjárhæðir viðbótarframlaga. Stofnframlög ríkis og sveitarfélaga nema því að lágmarki 30%, en geta orðið talsvert hærri ef þörf er á veitingu beggja tegunda viðbótarframlaga ríkisins.

End­ur­greiðsla stofn­fram­laga og Hús­næð­is­mála­sjóð­ur

Veitingu stofnframlaga ríkis og sveitarfélaga er heimilt að binda skilyrðum um að þau skuli endurgreidd þegar lánsfjármögnun hefur verið greidd upp (allt að 50 ára lánstími). Endurgreiðslur taka mið af fasteignamati almennrar íbúðar og greiðslubyrði miðast að meginstefnu til við meðalgreiðslubyrði lána á lánstíma.

Stofnframlag skal endurgreiða í heild sinni ef notkun íbúðar er breytt þannig að hún uppfylli ekki lengur skilyrði til þess að teljast almenn íbúð eða ef eigandi verður uppvís að lögbroti í starfsemi sinni eða ef önnur skilyrði fyrir úthlutun eru ekki uppfyllt. Stofnframlag skal jafnframt endurgreitt í heild sinni ef HMS og sveitarfélag þar sem almenn íbúð er staðsett heimila sölu hennar, nema andvirðið sé notað til kaupa á annarri almennri íbúð. Endurgreiðslur stofnframlaga, sem og hluti leigugreiðslna af íbúðum þar sem lán og stofnframlög hafa verið greidd upp, renna í Húsnæðismálasjóð.

Með uppbyggingu Húsnæðismálasjóðs er stefnt að sjálfbærni almenna íbúðakerfisins, en sjóðurinn mun m.a. taka við úthlutun stofnframlaga eftir nánari reglum sem er að finna í lögum 52/2016.