Almenna íbúðakerfið

Með lögum nr. 52/2016 var hinu svokallaða almenna íbúðakerfi komið á fót og kemur það að vissu leyti í stað eldra kerfis verkamannabústaða sem var við lýði á tuttugustu öldinni. Þar var um að ræða íbúðakerfi sem rekið var á félagslegum forsendum, fyrir atbeina verkalýðshreyfingarinnar og með stuðningi stjórnvalda, án þess þó að vera í beinni eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Leiguíbúðir sem HMS og sveitarfélög hafa veitt stofnframlög til byggingar eða kaupa á kallast almennar íbúðir og falla undir almenna íbúðakerfið. 

Almenna íbúðakerfið er byggt á danskri fyrirmynd (d. almene boliger).

Fjöldi íbúða inn­an al­menna íbúða­kerf­is­ins

Síðan almenna íbúðakerfinu var komið á fót hafa stofnframlög verið veitt vegna bygginga eða kaupa á samtals 2.981 almennum íbúðum sem verða staðsettar í öllum landshlutum. Af þeim eru rúmlega 1.100 íbúðir komnar í útleigu og má áætla að þar með hafi í kringum 1.700 manns fengið aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu á viðráðanlegum kjörum. Það er því mikilvægt að halda uppbyggingu almenna íbúðakerfisins áfram til að stuðla að því að fleiri einstaklingar og fjölskyldur geti átt kost á slíku öryggi. 

 

Hér má finna nánari upplýsingar um úthlutanir stofnframlaga.

Fyrir hverja eru almennar íbúðir?

Almennum íbúðum skal einungis úthlutað til leigjenda sem eru undir tekju- og eignamörkum skv. lögum nr. 52/2016, þ.m.t. námsmönnum, ungu fólki, öldruðum, fötluðu fólki og fólki sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.

Tekjur og eignir þeirra sem sækja um að búa í almennum íbúðum mega ekki fara umfram ákveðin mörk við upphaf leigutíma, enda er kerfinu ætlað að styðja við uppbyggingu leigumarkaðar fyrir tekju- og eignalága. Í dag eru tekjumörkin á ársgrundvelli 6.957.000 kr. fyrir hvern einstakling og 9.740.000 kr. fyrir hjón og sambúðarfólk. Við þá fjárhæð bætast 1.739.000 fyrir hvert barn og ungmenni að tuttugu ára aldri sem býr á heimilinu. Samanlögð heildareign leigjenda almennrar íbúðar, að frádregnum heildarskuldum við upphaf leigu, skal þá ekki nema hærri fjárhæð en 7.509.000 kr.

EinstaklingurHjón/sambúðarfólkFjárhæð fyrir hvert barn/ungmenni að 20 ára aldri
Hámarkstekjur á mánuði579.750 kr.811.667 kr.144.917 kr.

Leigufjárhæð almennra íbúða skal að meginstefnu til að duga fyrir öllum kostnaði við rekstur þeirra. Með vísan til markmiðs laga nr. 52/2016, um að húsnæðiskostnaður skuli að jafnaði rúmast innan fjórðungs af tekjum leigjenda, þarf að gæta þess að þær séu hagkvæmar. 

Úthlutanir almennra íbúða

Eigendur almennra íbúða eru þeir sem fengið hafa úthlutað stofnframlögum og eiga, reka og sjá um útleigu íbúða innan almenna íbúðakerfisins. Eigendur almennra íbúða bera ábyrgð á því að úthluta þeim til leigjenda sem eru undir tekju- og eignamörkum við upphaf leigunnar.

Við úthlutun skal að jafnaði farið eftir því hversu lengi umsækjandi hefur verið á biðlista eftir íbúð hjá viðkomandi aðila. Eiganda almennra íbúða er þó heimilt að setja reglur um forgangsrétt til leigu, svo sem vegna fjölskyldustærðar, fjárhagsstöðu og félagslegra aðstæðna umsækjanda. Leigjendur sem hafa fengið úthlutaðri íbúð en hafa þörf fyrir annars konar íbúð eiga að jafnaði forgang við úthlutun slíkrar íbúðar hjá sama eiganda almennra íbúða.

Þeim sem hafa áhuga á að leigja almenna íbúð er bent á að setja sig í samband við þá aðila sem fengið hafa úthlutað stofnframlögum vegna útleigu á slíkum íbúðum.