Sveitarfélög

Gjöld sveitarfélaga vegna almennra íbúða eru lykilforsendur við afgreiðslu umsókna um stofnframlög, bæði við útreikning á stofnvirði almennra íbúða við byggingu þeirra og við mat á rekstraráætlunum eigenda slíkra íbúða.

Til þess að mat á umsóknum um stofnframlög vegna byggingar almennra íbúða verði sem áreiðanlegast hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun útbúið eyðublað sem stofnunin óskar eftir að fyllt sé út af hálfu sveitarfélaga vegna hverrar umsóknar um stofnframlag ríkisins sem er til afgreiðslu hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og sem hlutaðeigandi sveitarfélag hefur samþykkt að veita stofnframlag til.

Upplýsingar um eyðublað:

Óskað er eftir staðfestingu sveitarfélags á stofnvirði þeirra almennu íbúða sem umsókn lýtur að og sundurliðun á stofnframlagi sem sveitarfélagið hefur samþykkt að veita vegna þeirra. Bent er á að stofnframlag sveitarfélags skal nema 12% af stofnvirði almennra íbúða og að það getur falist í beinu framlagi, úthlutun lóðar, lækkun eða niðurfellingu á gjöldum sem umsækjanda ber að standa skil á til hlutaðeigandi sveitarfélags vegna almennra íbúða eða í húsnæði sem breyta á í almennar íbúðir.

Minnt er á að það er forsenda fyrir veitingu stofnframlags ríkisins að sveitarfélag þar sem almennar íbúðir verða staðsettar veiti jafnframt stofnframlag sveitarfélags. Samþykkið þarf að vera staðfest af sveitarstjórn hverju sinni og í því þarf að tiltaka hvort sveitarfélagið nýti heimild sína til að krefjast endurgreiðslu stofnframlags, sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 183/2020.