21. febrúar 2025
18. febrúar 2025
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,5 prósent í janúar 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Vísitala íbúðaverðs hækkaði í janúar eftir að hafa lækkað í desember síðastliðnum
- Hækkunin er drifin áfram af sérbýlishúsum á höfuðborgarsvæðinu, en þau voru 11,8 prósentum dýrari í janúar en á sama tíma í fyrra
- Íbúðaverð hækkaði um 5,5 prósent að raunvirði á milli janúarmánaða samanborið við 2,8 prósenta raunhækkun í desember
Vísitala íbúðaverðs mældist 110,4 og hækkaði um 1,5 prósent á milli mánaða í janúar eftir að hafa lækkað um 0,6 prósent í desember síðastliðnum. Á síðustu 12 mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 10,4 prósent, á sama tíma og verðbólga mældist 4,6 prósent.
Raunverðshækkun vísitölu íbúðaverðs á ársgrundvelli er á uppleið og nam 5,5 prósent í janúar en til samanburðar var 12 mánaða hækkun íbúðaverðs 2,8 prósent í desember.
Taflan hér að neðan sýnir vísitöluna, ásamt mánaðarhækkun hennar og 12 mánaðahækkun, auk fjögurra undirvísitalna fjölbýlis og sérbýlis á landsbyggð og á höfuðborgarsvæðinu.
Vísitala íbúðaverðs fyrir janúar 2025
Vísitala | Gildi | Breyting á milli mánaða | 12 mánaða breyting |
---|---|---|---|
Íbúðaverð | 110,4 | 1,5% | 10,4% |
Sérbýli á hbs. | 111,8 | 3,7% | 11,8% |
Sérbýli á landsbyggð | 112,4 | 0,3% | 12,4% |
Fjölbýli á hbs. | 107,6 | 0,6% | 7,6% |
Fjölbýli á landsbyggð | 115,0 | -0,1% | 15,0% |
Hækkunin drifin áfram af sérbýlishúsum á höfuðborgarsvæðinu
Mikil verðhækkun sérbýliseigna á höfuðborgarsvæðinu er megindrifkrafturinn á bak við hækkun vísitölu íbúðaverðs í janúar, en líkt og taflan hér að ofan sýnir hækkaði undirvísitala slíkra eigna um 3,71 prósent á milli mánaða.
Undirvísitala sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu hefur því tekið töluverðum sveiflum á milli mánaða. Til að mynda hækkaði hún um 2,3 prósent á milli mánaða í nóvember á síðasta ári, en lækkaði svo um 2,2 prósent á milli mánaða í desembermánuði. Á síðustu 12 mánuðum hefur undirvísitalan hins vegar hækkað um 11,8 prósent, sem er ekki langt frá 10,4 prósenta hækkun á vísitölu íbúðaverðs á sama tíma.
Íbúðaverð heldur áfram að hækka umfram verðlag á landinu öllu og hækkaði meira í janúar samanborið við í desember. Raunverðshækkun nam 5,5 prósent í janúar á sama tíma og raunverðshækkun nam 2,8 prósent í desember.
Mælaborð fyrir vísitölur HMS
Mælaborð fyrir vísitölur HMS um íbúða- og leiguverð er aðgengilegt á vef HMS. Þar er hægt að nálgast þróun vísitölu íbúðaverðs, ásamt vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggð.
Einnig sýnir mælaborðið undirvísitölur íbúðaverðs og eldri vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir tímabilið 1994-2024 sem var birt á vef Fasteignaskrár, auk sameiginlegrar vísitölu, sem er byggð á eldri vísitölum íbúðaverðs fyrir tímabilið 1981-2024 og nýrri undirvísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og tekur gildið 100 í janúar 2024. Mælaborðið má finna á https://hms.is/gogn-og-maelabord/visitolur
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS