26. mars 2025
20. febrúar 2025
Mánaðarskýrsla HMS febrúar 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Mánaðarskýrsla HMS fyrir febrúar 2025 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að fasteignamarkaðurinn róaðist í desember, en kaupsamningum fækkaði um rúm 6% frá því í nóvember. Á lánamarkaði hafa óverðtryggðir vextir lækkað eftir hávaxtatímabil samhliða lækkandi stýrivöxtum, á sama tíma hafa vextir á verðtryggðum húsnæðislánum hækkað.
Mánaðarskýrslu HMS má nálgast hér
Myndir að baki mánaðarskýrslunni má nálgast hér
Rólegri fasteignamarkaður en vísbendingar um viðsnúning í janúar
Fasteignamarkaðurinn róaðist í desember, en kaupsamningum fækkaði um rúm 6% frá því í nóvember. Birgðatími húsnæðis og mæling á samningsstöðu seljenda bendir til þess að fasteignamarkaðurinn sé hvorki á valdi kaupenda né seljenda þessa stundina.
Hins vegar var töluverð virkni á fasteignamarkaði á síðasta ársfjórðungi 2024 ef tillit er tekið til efnahagsaðstæðna. Kaupsamningar voru álíka margir á ársfjórðungnum og þeir voru á sama tíma ári fyrr, þrátt fyrir miklar hækkanir á fasteignaverði og hærri vexti á verðtryggðum lánum. Sömuleiðis eru merki um viðsnúning í byrjun þessa árs, þar sem ekki hafa verið teknar fleiri íbúðir af sölu í janúarmánuði síðan í ársbyrjun 2021.
Leiguskrá vantelur leigusamninga sem eru gerðir af ættingjum og vinum
Á leigumarkaði býr hærra hlutfall í foreldrahúsum á fyrsta fjórðungi þessa árs samanborið við fyrsta ársfjórðung 2024 samkvæmt nýrri búsetumælingu sem framkvæmd var fyrir HMS.
Meðalleiga í leiguverðsjá HMS gæti verið lítillega ofmetin, þar sem flestir leigusamningar sem gerðir eru af ættingjum og vinum eru ekki skráðir í verðsjánni. Ríkisstjórnin hyggst koma á skráningarskyldu leigusamninga, sem myndi bæta upplýsingagjöf um leigumarkaðinn.
Óverðtryggðir vextir fara lækkandi eftir hávaxtatímabil
Á lánamarkaði hafa óverðtryggðir vextir lækkað eftir hávaxtatímabil samhliða lækkandi stýrivöxtum. Á sama tíma hafa vextir á verðtryggðum húsnæðislánum hækkað, þar sem stýrivextir hafa ekki lækkað í takt við minnkandi verðbólgu.
Vaxtaendurskoðunar er að vænta í ár af 272 milljarða króna* útlánum sem bera fasta óverðtryggða vexti, en það jafngildir 10% af íbúðalánum allra heimila. HMS telur þessa vaxtaendurskoðun munu ná til 9 til 10 þúsund heimila. Uppgreiðslur óverðtryggðra lána næstu misseri mun ráðast af getu heimila til að ráða við aukna greiðslubyrði af nafnvaxtalánum.
Skipulagsmál, hátt vaxtastig og samskipti við sveitarfélögin helstu áskoranir byggingaraðila
Á byggingarmarkaði komu 387 nýbyggðar íbúðir inn á markað á landinu öllu í janúar, og eru þær mun fleiri en á sama tíma í fyrra. Rúmur helmingur nýrra íbúða eru í Reykjavík og Hafnarfirði. HMS mun uppfæra spá sína um fjölda fullbúinna íbúða árin 2025 og 2026 í næsta mánuði út frá nýrri talningu stofnunarinnar á íbúðum í byggingu.
Uppfært 11:12 : Miðað við nýjustu upplýsingar og stöðu útistandandi óverðtryggra íbúðalána á föstum vöxtum 31.10.2024 var andvirði þeirra uppfært úr 277 milljörðum króna í 272 milljarða króna
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS