29. apríl 2024

Viðskipti með atvinnuhúsnæði dragast saman í mars

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Heildarvelta kaupsamninga um atvinnuhúsnæði nam 6,6 milljörðum króna í mars, sem er 47 prósentum undir langtímameðaltali síðustu þriggja ára og 18 prósentum undir heildarveltu febrúarmánaðar.

Tímaröð fyrir viðskipti með atvinnuhúsnæði

Tímaröð fyrir viðskipti með atvinnuhúsnæði

Alls nam velta með atvinnuhúsnæði 23 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi þessa árs og er það nær óbreytt upphæð frá sama tímabili í fyrra. Þó hefur kaupsamningum fækkað nokkuð á milli ára, en þeir voru 264 talsins á nýliðnum ársfjórðungi, samanborið við 316 á fyrsta ársfjórðungi 2023.

Kaup­samn­ing­um fækk­ar en verð­ið hækk­ar

HMS hefur áður greint frá því að viðskipti með atvinnuhúsnæði hafi tekið við sér eftir að hafa dregist saman á miðju síðasta ári, en fjöldi kaupsamninga og heildarvelta slíkra fasteigna hefur farið lækkandi frá byrjun árs.

Þinglýstum kaupsamningum með atvinnuhúsnæði fækkaði úr 102 í janúar í 90 í febrúar. Nýjar tölur fyrir marsmánuð sýna enn meiri samdrátt, þar sem kaupsamningar voru 72 talsins. Þar af voru 39 kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu og 33 kaupsamningar utan höfuðborgarsvæðisins.

Heildarvirði viðskipta með atvinnuhúsnæði í mars var minna en það var á sama tíma í fyrra, en heildarvelta með atvinnuhúsnæði í mars 2023 nam 7,6 milljörðum króna. Líkt og sést á mynd hér að neðan var umfangið mun lægra en sögulegt meðaltal, ef miðað er við mánaðarlegan fjölda kaupsamninga frá ársbyrjun 2020.

Þrátt fyrir færri kaupsamninga og minni heildarveltu hefur meðalkaupverð hvers kaupsamnings þó hækkað töluvert á milli mánaða, úr 86 milljónum króna í febrúar í 91 milljón króna í mars. Á síðustu 12 mánuðum hefur meðalkaupverð atvinnuhúsnæðis hækkað um 38 prósent.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS