14. júlí 2025
14. júlí 2025
Staða almenna íbúðakerfisins í júlí 2025
- Rúmlega 3.000 almennar íbúðir hafa verið teknar í notkun með aðstoð stofnframlaga
- Tvær af hverjum þremur almennum íbúðum eru í Reykjavík
- Yfir 7.000 einstaklingar hafa fengið öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði
Frá því að reglur um stofnframlög tóku gildi á seinni hluta árs 2016 hefur fram til þessa verið úthlutað stofnframlögum til byggingar eða kaupa á rúmlega 4.000 íbúðum í 44 sveitarfélögum um allt land. Af þeim hafa rúmlega 75 prósent íbúða þegar verið teknar í notkun. Heildarfjárfesting í verkefnunum nemur um 160 milljörðum króna.
Til úthlutunar í ár eru 7,3 milljarðar króna og hefur HMS lokið fyrstu úthlutun 2025 og vinnur nú úr umsóknum sem bárust í annarri úthlutun ársins. Alls hafa borist umsóknir vegna 485 íbúða í fyrstu og annarri úthlutun, þá hafa átta umsóknir vegna 48 íbúða verið samþykktar af HMS og viðkomandi sveitarfélagi þar sem íbúðir verða staðsettar fram til þessa.
Rúmlega 3.000 ný heimili með viðráðanlegan húsnæðiskostnað með aðstoð stofnframlaga
Teknar hafa verið í notkun yfir 3.000 íbúðir og eru þær nú öruggt heimili, með viðráðanlegan húsnæðiskostnað, fyrir fjölskyldur í 32 sveitarfélögum um allt land. Áætla má að fjöldi einstaklinga sem býr í íbúðunum sé um 7.200 manns ef miðað er við landsmeðaltal um að 2,4 íbúar búi að meðaltali í hverri íbúð sem tekin hefur verið í notkun.
Flestar almennar íbúðir komnar í notkun í Reykjavík
Mesta uppbyggingin innan almenna íbúðakerfisins hefur fram til þessa verið á höfuðborgarsvæðinu, þar sem nærri 2.400 íbúðir af rúmlega 3.000 hafa verið teknar í notkun. Reykjavíkurborg verið með langflestar samþykktar íbúðir allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en um 2.000 íbúðir voru staðsettar þar.
Á Suðurnesjum og á Norðurlandi eystra hafa svo 133 íbúðir verið teknar í notkun í hvorum landshluta fyrir sig, á meðan rúmlega 120 íbúðir hafa verið teknar í notkun á Vesturlandi og Suðurlandi.
Um stofnframlög
Stofnframlög eru stuðningur í formi eigin fjár sem veitt eru til uppbyggingar á leiguíbúðum fyrir tekju- og eignaminni heimili til að auka húsnæðisöryggi leigjenda og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Stofnframlögin sem eru veitt bæði til byggingar og kaupa á íbúðum eru veitt annars vegar fyrir hönd ríkisins í gegnum HMS og hins vegar frá viðkomandi sveitarfélagi þar sem íbúðirnar koma til með að vera staðsettar í.
Stofnframlag ríkisins er 18 prósent af stofnkostnaði íbúðanna og framlag sveitarfélags er 12 prósent. Ríki er heimilt að veita allt að 4 prósent viðbótarframlag vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga, íbúðarhúsnæðis ætlað námsmönnum eða fötluðu fólki. Einnig er heimilt að veita sérstakt byggðaframlag vegna byggingar almennra íbúða á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki.