14. júlí 2025
14. júlí 2025
Samræmd úttekt hafin á slökkvivatni vatnsveitna á Íslandi
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), í samstarfi við Félag slökkviliðsstjóra á Íslandi og Fagráð vatnsveitna SAMORKU, hafa hafið samstarf um að framkvæma samræmda úttekt á slökkvivatni vatnsveitna á Íslandi. Markmið verkefnisins er að tryggja nægjanlegt vatn og vatnsþrýsting til slökkvistarfa, sérstaklega á svæðum þar sem aðgengi að slökkvivatni getur verið takmarkað.
Ákvörðunin um að ráðast í þessa úttekt byggist á niðurstöðum úttektar á starfsemi slökkviliða sem HMS framkvæmdi árið 2021. Þar kom fram að 55% slökkviliðsstjóra töldu að úrbætur væru nauðsynlegar á vatnsveitum og dreifikerfum á þeirra starfssvæði. Einnig höfðu Veitur samband við HMS og óskuðu eftir leiðbeiningum um slökkvivatnsþörf bygginga og kröfur til brunahana.
Samkvæmt lögum um brunavarnir nr. 75/2000 ber HMS að vinna að samræmingu brunavarna í landinu og stuðla að samvinnu þeirra sem starfa að brunavörnum. Þar kemur einnig fram að sveitarfélögum beri að sjá til þess að nægjanlegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfa og að slökkviliðsstjórar eigi að hafa eftirlit með virkni brunahana í sínu umdæmi í samráði við rekstraraðila viðkomandi vatnsveitu.
Verkefnið felur í sér að safna upplýsingum um uppbyggingu og áfallaþol veitukerfa, sem og að meta virkni brunahana á hverju starfssvæði. Samráðshópurinn hefur útbúið verklag og spurningalista sem sendur hefur verið til vatnsveitna og slökkviliðsstjóra um land allt.
Með þessari úttekt er stefnt að því að efla vatnsöflun, tryggja slökkvivatn á erfiðum svæðum og stuðla að samræmdri og heildrænni nálgun í brunavörnum. Það er mikið hagsmunamál allra í landinu að viðbragðsaðilar hafi raunsanna mynd af stöðu mála á hverju svæði svo hægt sé að skipuleggja fyrsta viðbragð í samræmi við fyrirliggjandi bjargir. Vonast er til að mælingum verði lokið fyrir 1. september 2025.