22. nóvember 2024
5. mars 2024
Staða fjölskyldufólks á leigumarkaði versnaði í fyrra
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Framboð af hentugu húsnæði á leigumarkaði minnkaði á milli haustmánaða 2022 og 2023, auk þess sem samningsstaða leigjenda gagnvart leigusölum versnaði
- Staðan versnaði mest á meðal leigjenda á aldrinum 35-44 ára, sem upplifðu meiri verðhækkanir og búa við þrengri kost en aðrir aldurshópar
- Þriðji hver leigjandi taldi sig vera í sterkri samningsstöðu gagnvart leigusala í fyrrahaust, samanborið við 50% leigjenda á haustmánuðum 2022
Leigjendur á aldrinum 35-44 ára á leigumarkaði hafa séð hraðar leiguverðshækkanir á síðasta ári, auk þess sem húsakostur þeirra hefur þrengst, erfiðara hefur verið fyrir þá að verða sér úti um húsnæði og samningsstaða þeirra gagnvart leigusala hefur versnað. Þetta má m.a. lesa út úr leigumarkaðskönnun sem HMS lætur framkvæma á ári hverju.
Á hverju ári lætur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) framkvæma mælingu á stöðu leigjenda. Mælingin felst í spurningakönnun sem borin er undir leigjendur eingöngu og þeir spurðir um fjárhag, viðhorf, bakgrunn og önnur atriði er varða stöðu þeirra á leigumarkaði. Leigukönnunin, sem er framkvæmd af markaðsrannsóknarfyrirtækinu Prósent í ágústmánuði á hverju ári, nær til einstaklinga 18 ára og eldri sem eru á leigumarkaði.
Framboð af hentugu húsnæði af skornum skammti
Aldrei frá upphafi mælinga könnunar (frá 2015) hefur framboð af hentugu húsnæði mælst jafnlítið og nú, en það hefur lækkað samfellt frá árinu 2020. Í aldursflokknum 35-44 ára er framboðið minna samanborið við aðra aldurshópa sem bendir til þess að hentugt húsnæðið fyrir fjölskyldufólk sé af skornum skammti.
Leiguverð fjölskyldufólks hækkar á meðan húsakostur þrengist
Í aldurshópnum 35-44 ára tekur meðalfjárhæð leigu stökk milli ára úr 180 þús. kr. frá fyrra ári í rúmlega 210 þús. kr. eða sem nemur 16,8% hækkun milli ára. Hækkun meðalleigufjárhæðar er mest innan þess hóps en í könnunni í heild nemur hækkun meðalleiguverðs 9,2% milli ára.
Þrátt fyrir að leiguverð hafi hækkað mest hjá 35-44 ára leigjendum bendir könnunin ekki til þess að húsakostur þeirra hafi batnað á milli ára. Þvert á móti sýnir könnunin að leigjendur í umræddum aldurshópi búi nú þrengra heldur en áður, en hlutfall þeirra sem búa í leiguhúsnæði stærra en 100 fermetra lækkar úr 42% niður í 35% á milli áranna 2022 og 2023. Leigjendur í þessum aldursflokki búa einnig við þrengri kost en aðrir aldursflokkar, en meðalfjöldi íbúa á heimili þeirra er 2,8 miðað við 2,2 íbúa meðalfjölda á leigumarkaðnum öllum.
Erfiðara er að finna húsnæði og leigjendur með verri samningsstöðu
Þróunin frá 2020 hefur verið í þá átt að sífellt fleiri eru í erfiðleikum með að finna núverandi húsnæði en 51% leigjenda fannst erfitt að verða sér úti um núverandi húsnæði samanborið við 46% 2022. Í aldurshópnum 35-44 ára segjast 70% svarenda hafa átt erfitt með að verða sér úti um húsnæði en hlutfallið var 55% í síðustu könnun.
Þeim fer fækkandi sem telja að samningsstaða sín gagnvart leigusala sé sterk en verst koma niðurstöður könnunar út fyrir aldurshópinn 35-44 ára. Ríflega fjórðungur þess hóps (26%) telur að samningsstaða sín sé sterk gagnvart leigusala en hlutfallið var 36% í könnun 2022. Í 2022 könnun í heild sinni taldi um annar hver svarandi (49%) að samningsstaða sín væri sterk gagnvart leigusala en í ár telur rétt rúmlega þriðji hver svarandi að svo sé (35%).
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS