5. ágúst 2025
5. ágúst 2025
22 hlutdeildarlán veitt í júlí og opið er fyrir umsóknir fyrir ágúst
- Andvirði umsókna um hlutdeildarlán nam um 706 milljónum króna en 333 milljónir króna voru til úthlutunar
- 22 umsóknir samþykktar og nemur heildarfjárhæð veittra hlutdeildarlána 287 milljónum króna
- Opnað hefur verið fyrir umsóknir í ágúst og eru 333 milljónir króna til úthlutunar
Opnað var að nýju fyrir umsóknir um hlutdeildarlán þann 1. júlí síðastliðinn og mánaðarlegar úthlutanir lánanna jafnframt tryggðar út árið 2025. Til úthlutunar í júlí voru 333 milljónir króna en sótt var um 53 hlutdeildarlán fyrir rúmlega 706 milljónir króna.
Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa þau til boða fyrir fyrstu kaupendur og þá sem ekki hafa átt íbúð síðastliðin fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum.
Flest lán í Hafnarfirði
Af 53 umsóknum sem bárust í júlí voru 36 vegna kaupa á fasteign á höfuðborgarsvæðinu, 16 á skilgreindum vaxtarsvæðum og 1 á landsbyggðinni utan vaxtarsvæða. Umsóknir þar sem samþykkt kauptilboð lá fyrir voru í heildina 46 talsins, en 29 þeirra voru vegna kaupa á eign í Hafnarfirði.
Að lokinni yfirferð uppfylltu 22 umsóknir öll skilyrði fyrir veitingu hlutdeildarláns og nam heildarfjárhæð veittra lána í júlí 287 milljónum króna. Í öllum samþykktum umsóknum lá fyrir samþykkt kauptilboð.
Áframhaldandi ásókn í hlutdeildarlán
Ásókn í hlutdeildarlán heldur áfram að vera mikil og var sótt um 374 milljónir umfram það sem var til úthlutunar. Þrátt fyrir að ásókn hafi verið mikil var einungis veitt hlutdeildarlán fyrir 287 milljónir króna þar sem fjölmargar umsóknir voru ekki samþykktar sökum þess að umsækjendur stóðust ekki greiðslumat eða voru yfir greiðslubyrðarhlutfalli Seðlabanka Íslands.
Opnað hefur verið fyrir úthlutun í ágúst þar sem 333 milljónir eru til úthlutunar
HMS hefur opnað fyrir umsóknir um hlutdeildarlán fyrir ágústmánuð. Hægt er að sækja um til og með 15. ágúst með því að smella á þennan hlekk.
Umsóknartímabilið stendur frá 5. ágúst og til kl. 12:00 þann 15. ágúst næstkomandi. Til úthlutunar að þessu sinni eru 333 milljónir króna. Dugi fjármagnið ekki sem nú er til úthlutunar verður dregið af handahófi úr umsóknum þeirra umsækjanda sem uppfylla skilyrði hlutdeildarlána í samræmi við forgangsreglur.
Í forgangi eru umsóknir þar sem staðfest kauptilboð liggur fyrir, auk þess sem miða skal við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20% veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins. Ekki verður hægt að gefa út lánsvilyrði fyrr en allar umsóknir hafa verið yfirfarnar.