30. júní 2025
30. júní 2025
Samþykkt stofnframlag til nýrra leiguíbúða fyrir aldraða á Dalvík
Brák íbúðafélag hefur fengið samþykkta umsókn um úthlutun stofnframlags úr fyrstu úthlutun ársins 2025, til byggingar á nýju leiguhúsnæði á Dalvík. Um er að ræða 12 íbúða fjölbýlishús á tveimur hæðum, búið utan á liggjandi lyftu. Íbúðirnar verða sérstaklega ætlaðar öldruðu fólki. Er um að ræða annað verkefnið sem fær samþykkt veitingu stofnframlaga í Dalvíkurbyggð, en áður hefur verið byggður íbúðakjarni með sjö íbúðum fyrir fatlað fólk á Dalvík með aðstoð stofnframlaga.
Samþykkt var að leggja verkefninu til stofnframlag frá ríkinu auk sérstaks byggðaframlags sem ætlað er að styðja við að húsnæðisuppbygging á landsbyggðinni sé í samræmi við þörf. Dalvíkurbyggð hefur sömuleiðis samþykkt að veita stofnframlag til verkefnisins.
Brák íbúðafélag er rekið án hagnaðarsjónarmiða og hefur það að markmiði að tryggja tekjulægri einstaklingum og fjölskyldum öruggt og langtímaleigt húsnæði. Hlutverk Brákar er að byggja eða kaupa íbúðir fyrir tekju- og eignaminni heimili og sjá um rekstur og viðhald þeirra eigna. Í dag eru 35 sveitarfélög aðilar að Brák og rúmlega 300 íbúðir annað hvort komnar í útleigu eða í undirbúningi.
Verkefnið er hluti af Tryggð byggð - samstarfsvettvangi um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni.