17. júlí 2025
18. júlí 2025
Verðþrýstingur á leigumarkaði minni en í fyrra
- Nýskráðir leigusamningar voru 11,4 prósent fleiri á fyrstu sex mánuðum þessa árs samanborið við í fyrra
- Vísitala leiguverðs hækkaði minna á fyrri hluta 2025 en 2024, bæði að nafnvirði og raunvirði
- Minna hefur verið um yfirboð á leiguverði en í fyrra
Alls hafa 8.995 nýir leigusamningar tekið gildi í leiguskrá HMS á fyrri helmingi ársins 2025. Á sama tímabili í fyrra tóku 8.060 leigusamningar gildi og því fjölgaði nýskráðum leigusamningum í leiguskrá um 11,6 prósent milli ára.
Leigusamningum fjölgaði hlutfallslega mest á landsbyggðinni en rúmlega þriðjungi fleiri samningar voru skráðir um íbúðir á landsbyggðinni í ár samanborið við í fyrra. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins fjölgaði nýskráðum leigusamningum um 6,3 prósent en innan höfuðborgarsvæðisins, þar sem um sjö af hverjum tíu leigusamningum eru skráðir, fjölgaði þeim um 9 prósent milli ára.
Framangreint er ekki endilega til marks um að leigumarkaðurinn á landsbyggðinni hafi vaxið meira en á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess heldur getur verið að leiguskrá sé sífellt að ná betur utan um stöðu leigumarkaðarins með tímanum.
Vísitala leiguverðs hefur hækkað minna en í fyrra
Vísitala leiguverðs mældist 122,8 stig í júní 2025 og lækkaði um 0,41 prósent á milli mánaða í júní. Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala leiguverðs hækkað um 5,77 prósent, á sama tíma og verbólga mældist 4,2 prósent.
Á fyrri helmingi ársins hefur vísitalan því hækkað um 3,5 prósent að nafnvirði og 0,2 prósent að raunvirði. Á sama tímabili í fyrra hækkaði vísitalan öllu meira, eða um 9,6 prósent að nafnvirði og um 5,6 prósent að raunvirði. Það má því segja að verðþrýstingur á leigumarkaði sé minni í ár samanborið við í fyrra.
Minna um yfirboð á leigusamningum
Á sama tíma og hægst hefur á leiguverðshækkunum samkvæmt vísitölu leiguverðs hefur hlutfallsleg tíðni yfirboða á leigumarkaði jafnframt dregist saman, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd sem byggir á gögnum af leiguvefnum Myigloo.is. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 var umsamið leiguverð yfir auglýstu leiguverði í um 18 prósent leigusamninga. Það sem af er ári hafa aftur á móti öllu færri leigusamningar verið gerðir yfir auglýstu verði, eða að jafnaði 9 prósent leigusamninga.
Í leiguverðsjá HMS má einnig sjá merki um minni verðsveiflur á leigumarkaði. Samkvæmt leiguverðsjánni var meðalleiga 60-90 fermetra íbúðar á hagnaðardrifnum leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu með 2-4 herbergi 293 þúsund krónur í júní. Meðalleiga slíkrar íbúðar hefur lítið breyst á undanförnum mánuðum, en hún nam 292 þúsund krónum í apríl.