18. júlí 2025
17. júlí 2025
Mánaðarskýrsla HMS júlí 2025
Mánaðarskýrsla HMS fyrir júlí 2025 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að fasteignamarkaður hefur kólnað í maí og júní, þar sem hlutfallslega færri íbúðir hafa selst á yfirverði og á lánamarkaði var nýtt met slegið í verðtryggðum lánveitingum lífeyrissjóða til íbúðakaupa í maí.
Mánaðarskýrsla HMS
Myndir að baki mánaðarskýrslu
Aðrir þættir en stærð og verð halda aftur af sölu nýrra íbúða
Fasteignamarkaðurinn hefur kólnað í maí og júní, þar sem hlutfallslega færri íbúðir hafa selst á yfirverði og fleiri fasteignasalar segja algengt að verð sé lækkað í söluferli. Hins vegar er virkni á fasteignamarkaði enn töluverð, en fjöldi kaupsamninga í maí og júní er í takt við meðaltal síðustu tíu ára.
Nýjum íbúðum á sölu fjölgar enn, þar sem margar þeirra hafa komið inn á markaðinn en fáar þeirra selst. Um 1.400 nýjar íbúðir voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu í upphafi júlímánaðar og hafa þær ekki verið fleiri frá upphafi mælinga 2018.
Ný greining HMS bendir til þess að stærð og verðlagning nýrra íbúða útskýri að hluta til langan sölutíma þeirra, en meira máli virðist skipta hvort íbúð sé ný eða notuð. Margvíslegar skýringar geta legið þar að baki, líkt og skortur á bílastæðum, verri birtuskilyrði eða áhættufælni vegna mögulegra galla í nýbyggingum.
Verðþrýstingur minnkar á leigumarkaði í júní
Leigumarkaðurinn er virkur, en ríflega 1.500 leigusamningar tóku gildi í leiguskrá HMS í júní og er það í samræmi við síðustu mánuði. Hins vegar hefur dregið úr verðþrýstingi, þar sem vísitala leiguverðs lækkaði á milli mánaða í júní og dregið hefur úr yfirboðum á leiguverði á leiguvefnum myigloo.is.
Takmarkaðir möguleikar til kaupa á nýjum íbúðum án verðtryggingar
Á lánamarkaði var nýtt met slegið í verðtryggðum lánveitingum lífeyrissjóða til íbúðakaupa í maí. Á sama tíma var hrein ný lántaka hjá bönkunum lítil fjórða mánuðinn í röð.
Greining HMS sýnir að allt að 80% einstaklinga stæðust ekki greiðslumat fyrir nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu með lágmarks eigið fé. Pör standa betur að vígi, en erfitt er fyrir þau að festa kaup á nýjum íbúðum án þess að taka verðtryggð lán.
Mestur skortur á starfsfólki í byggingariðnaði
Byggingarmarkaðurinn hefur vaxið, þar sem störfum í byggingariðnaði hefur fjölgað ásamt því að stór hluti stjórnenda í atvinnugreininni telja skort vera á starfsfólki. Hins vegar hefur íbúðum í byggingu fækkað nokkuð á síðustu mánuðum, en stærsti hluti veltu í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð hefur verið í uppbyggingu á mannvirkjum atvinnuvega.