23. maí 2025
22. maí 2025
Mánaðarskýrsla HMS maí 2025
Mánaðarskýrsla HMS fyrir maí 2025 er komin út, en hana má nálgast með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að á fyrsta ársfjórðungi á fasteignamarkaði hefur ungum kaupendum fækkað lítillega.* Á leigumarkaði má greina mun á gerð leigusamninga eftir að óheimilt var að vísitölubinda styttri leigusamninga.
Mánaðarskýrsla HMS
Myndir að baki mánaðarskýrslu
Ungum kaupendum fækkar lítillega milli ársfjórðunga
Á fasteignamarkaði voru umsvif á fyrsta ársfjórðungi áþekk því sem þau voru á sama tíma í fyrra. Ungir kaupendur eru einnig álíka margir og þeir voru á sama tíma í fyrra, en þeir voru 640 í ár, miðað við 630 á fyrsta fjórðungi síðasta árs. Ungum kaupendum fækkar hins vegar lítillega á milli ársfjórðunga, en þeir voru 681 talsins á fjórða ársfjórðungi í fyrra.*
HMS sendir nú út mánaðarlegar spurningakannanir til fasteignasala þar sem spurt er um viðhorf þeirra til fasteignamarkaðarins. Í fyrstu könnuninni, sem framkvæmd var í byrjun maí, telur meirihluti svarenda að núverandi virkni á fasteignamarkaði sé frekar lítil eða lítil miðað við árstíma.
Minna um vísitölubindingu hjá styttri samningum um markaðsleigu eftir lagabreytingu
Á leigumarkaði má greina mun á gerð leigusamninga eftir að óheimilt var að vísitölubinda styttri leigusamninga með lagabreytingu sem tók gildi í september 2024. Tæpur helmingur styttri samninga á hagnaðardrifnum leigumarkaði var vísitölubundinn fyrir lagabreytingu en um 7% þeirra eru nú bundin við vísitölu.
Húsnæðisbætur hafa hækkað töluvert á síðustu sjö árum, en þó ekki jafnmikið og markaðsleiga. Meðalfjárhæð húsnæðisbóta hækkaði um 63 prósent frá ársbyrjun 2017 til ársbyrjunar 2025, en vísitala leiguverðs hækkaði um 75 prósent á sama tíma.
Ný lántaka á hvern kaupsamning minni
Á lánamarkaði geta heimili ekki tekið jafnhá lán og þau gátu fyrir þremur árum síðan vegna vaxta og strangari lánþegaskilyrða Seðlabankans. Frá árinu 2022 hefur ný lántaka á hvern kaupsamning minnkað um 45 prósent að raunvirði, þrátt fyrir að fasteignaverð hafi hækkað umfram verðlag.
Ný lántaka á hvern kaupsamning hefur ekki verið minni frá árinu 2016 þrátt fyrir töluverða eftirspurn á fasteignamarkaði sem bendir til þess að eftirspurn sé haldið uppi af efnameiri kaupendum.
Nýbyggingum fækkar lítillega og stöðug uppbygging frá áramótum
Á byggingarmarkaði hafa alls 1.127 nýjar íbúðir verið fullbúnar frá áramótum, sem eru álíka margar íbúðir og á sama tímabili í fyrra. Uppbygging hefur verið stöðug á síðustu mánuðum, sem bendir til þess að nýjar framkvæmdir hefjist á svipuðum hraða og eldri verkefnum er lokið.
*Uppfært kl. 09:51. Vegna reiknivillu kom fram í fyrri útgáfu mánaðarskýrslunnar að ungum kaupendum hafi fækkað meira á fyrsta ársfjórðungi 2025 en rauntölur segja til um. Skýrslan hefur verið uppfærð í samræmi við nýjar tölur, beðist er velvirðingar á mistökunum.