22. maí 2025
22. maí 2025
Spáð minni en áframhaldandi vexti í Múlaþingi
- Áætlað er að íbúum fjölgi um 221 manns á næstu 5 árum, sem er fjölgun um 5,3 prósent
- Fjöldi íbúða í byggingu í takt við spá um fólksfjölgun
- Sveitarfélagið stefnir að úthlutun lóða fyrir 388 íbúðir á næstu 5 árum til að tryggja nægt framboð
Sveitarfélagið Múlaþing hefur staðfest endurskoðaða húsnæðisáætlun fyrir árið 2025. Múlaþing er fjölkjarna sveitarfélag þar sem byggðakjarnarnir eru Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Djúpavogur og Borgarfjörður eystri.
Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að íbúum sveitarfélagsins muni fjölga um 457 á næstu tíu árum, sem gerir 10,9 prósent aukningu. Til samanburðar hefur íbúum fjölgað um 303 á síðastliðnum 5 árum eða um 6,1 prósent. Gert er ráð fyrir að um 70 prósent af væntanlegri fólksfjölgun verði á Egilsstöðum og um 20 prósent á Djúpavogi, en um 10 prósent fjölgunarinnar dreifist milli Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar eystra.
Ný spá sveitarfélagsins gerir ráð fyrir heldur minni vexti en í síðastu spá, en sú spá raungerðist nánast að fullu á síðasta ári því íbúum fjölgaði um 55 manns á meðan spáð var að þeim myndi fjölga um 56 manns.
Þörf fyrir um 22 nýjar íbúðir á ári
Samkvæmt húsnæðisáætluninni er gert ráð fyrir að þörf verði fyrir að meðaltali um 22 nýjar íbúðir á ári, sem jafngildir 108 íbúðum á næstu fimm árum og alls 217 íbúðum yfir tíu ára tímabil. Til samanburðar hefur fjölgun íbúða á síðustu fimm árum verið að meðaltali um 21 íbúð og 16 íbúðir á ári síðastliðin tíu ár. Þörfin er metin mest á Egilsstöðum sem er jafnframt stærsti byggðakjarninn í Múlaþingi, auk þess sem metin er næst mest þörf fyrir að fjölga íbúðum á Djúpavogi.
Fjöldi íbúða sem eru í byggingu dugir til að mæta íbúðaþörf
Samkvæmt nýjustu talningu HMS voru 55 íbúðir í byggingu í mars 2025. Það er 21,4 prósent færri en í síðustu talningu í september 2024 og 16,7 prósent færri en á sama tíma í fyrra. Á myndinni hér að neðan má sjá að mikill meirihluti íbúða í byggingu er á fyrsta matsstigi, sem þýðir að jarðvegsvinna sé hafin og í sumum tilfellum er einnig byrjað á undirstöðum. Flestar íbúðir í byggingu eru staðsettar á Egilstöðum en þó nokkur fjöldi er einnig í byggingu á Seyðisfirði.
Fjöldi íbúða sem nú teljast í byggingu ætti að duga til að mæta þeirri íbúðaþörf sem sveitarfélagið áætlar að verði á næstu tveimur árum ef um eðlilega framvindu í þeim framkvæmdum verður að ræða.