23. maí 2025
23. maí 2025
Metár í fjölda tilkynninga um hættulegar vörur
Árið 2024 var metár í fjölda tilkynninga um hættulegar vörur innan Evrópu samkvæmt Safety Gate. Safety Gate er samevrópskt tilkynningakerfi um hættulegar vörur. Markmiðið með kerfinu er að tryggja skilvirkt upplýsingaflæði milli Evrópuríkja um hættulegar vörur sem fyrirfinnast á evrópskum markaði og skjót viðbrögð markaðseftirlitsstjórnvalda til að koma í veg fyrir að vörur sem hafa verið metnar hættulegar séu í dreifingu og notkun. Alls voru skráðar 4.137 tilkynningar á árinu, sem er mesti fjöldi tilkynninga frá stofnun kerfisins og næstum því tvöfaldur fjöldi miðað við árið 2022.
Vaxandi hætta á netinu – Temu, SHEIN og önnur netsölutorg undir smásjá
Verulega fjölgun tilkynninga í Safety Gate má að miklu leyti rekja til stórsóknar netsölutorga utan Evrópu á borð við Temu og SHEIN á evrópskan neytendamarkað.
Markaðseftirlitsstjórnvöld víða um Evrópu hafa beint sjónum sínum að vaxandi vanda sem tengist gífurlegu vöruframboði á netinu og markaðseftirliti í netsölu. Sérstök áhersla hefur verið lögð á úttektir á vörum sem seldar eru í gegnum netsölutorgin, þar sem ítrekað hefur komið í ljós að verulegur hluti varanna stenst ekki evrópskar kröfur og hlutfall vara sem reynast beinlínis hættulegar er jafnframt hátt. Niðurstöður úttekta eru sláandi:
- Vörur innihalda í mörgum tilvikum hættuleg eða skaðleg efni, jafnvel eiturefni.
- Rafföng sem geta valdið brunahættu.
- Leikföng með smáhlutum sem geta valdið köfnunarhættu.
- Vörur eru oft rangt merktar eða ekki með nauðsynlegum upplýsingum, sem gerir nær ómögulegt að meta hvort þær uppfylli kröfur sem gerðar eru til þeirra.
Þessi þróun vekur upp alvarlegar áhyggjur meðal eftirlitsaðila og sýnir að öflugt og samhæft markaðseftirlit með vörum í netverslun er brýnna en nokkru sinni fyrr. Samhliða því gegna upplýstir neytendur lykilhlutverki í að halda hættulegum vörum frá heimilum sínum og umhverfi.
Snyrtivörur og leikföng efst á lista yfir hættulegar vörur
Stærstur hluti tilkynninga árið 2024, eða um 36%, er vegna snyrtivara. Í flestum tilvikum innihéldu snyrtivörurnar BMHCA (butýlfenýl metýlprópíónal), ilmefni sem hefur verið bannað í Evrópu síðan í mars 2022 vegna hættu á húðertingu og krabbameini. Efnahætta var raunar einnig algengur hættueiginleiki í tilviki skartgripa, sem innihéldu gjarnan kadmíum, nikkel og blýs í miklu magni. Næst á eftir snyrtivörum voru flestar tilkynningar vegna leikfanga eða um 15%. Hættueiginleikar þar voru helst köfnunarhætta vegna smáhluta, hætta á heilsutjóni vegna innihalds óleyfilegra efna og hætta á meiðslum, til dæmis vegna hvassra brúna eða oddhvassra hluta. Í þriðja og fjórða sæti voru rafföng, þar sem hlutfall tilkynninga var um 10%, og ökutæki, þar sem fjöldi tilkynninga var um 9% af heildinni.
Heimild: Safety_Gate_2024_report_EN
Ísland meðal þátttakenda í Safety Gate kerfinu
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fer með hlutverk samræmingaraðila Safety Gate á Íslandi og annast samskipti við önnur EES-ríki vegna tilkynninga og viðbragða.
Íslensk stjórnvöld skráðu eða fylgdu eftir 30 tilkynningum um hættulegar vörur. Algengustu málin sem þurfti að fylgja eftir hérlendis á síðasta ári tengdust leikföngum og barnavörum, sem undirstrikar mikilvægi öflugs markaðseftirlits á þessum sviðum.
Neytendur afli sér upplýsinga um vöruöryggi og sýni aðgát við verslun á netsölutorgum
Til að tryggja að vörur á markaði séu eins öruggar og unnt er, bæði fyrir neytendur og umhverfið, er mikilvægt að markaðseftirlit sé öflugt og áhættumiðað og að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um vöruöryggi. Vel upplýstir neytendur gegna lykilhlutverki við að stuðla að öruggum markaði og þar skiptir afgerandi máli að þeir láti markaðseftirlitsstjórnvöld vita ef þá grunar að vara sé hættuleg eða uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru til hennar. Neytendur geta meðal annars kynnt sér tilkynningar um hættulegar vörur og fræðslu um vöruöryggi á eftirfarandi vefsíðum:
- Vöruvaktin.is – íslensk upplýsingasíða stjórnvalda sem sinna markaðseftirliti með tilkynningum um hættulegar vörur og fræðslu um vöruöryggi. Hægt er að senda ábendingar sem snerta vöruöryggi í gegnum síðuna.
- Safety Gate – samevrópskt tilkynningakerfi um hættulegar vörur. Þar er hægt að skrá sig á póstlista eftir áhugasviði og fá reglulegar upplýsingar um nýjustu aðvaranir.
Með vísan til vaxandi áhrifa netsölutorga utan Evrópu og fyrirliggjandi upplýsinga um hættueiginleika, sem fjallað var um hér áður og hafa jafnvel ítrekað komið í ljós í tilviki sumra vöruflokka, er tilefni til að hvetja neytendur sérstaklega til að sýna aðgát þegar þeir huga að vörukaupum á slíkum vettvangi.