10. september 2020

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir september 2020

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Íbúðum til sölu fækkar

Íbúðum til sölu fækkar

Fasteignaviðskipti virðast enn vera í miklum uppgangi og það sést glögglega í fjölda þinglýstra kaupsamninga í júlí, sem hafa ekki verið fleiri það sem af er ári. Sömu sögu er að segja um skammtímavísi HMS (fjöldi íbúða teknar úr sölu af fasteignir.is) þar sem má sjá gríðarlega aukningu eigna tekna úr sölu þriðja mánuðinn í röð. Ef seinustu þrír mánuðir eru skoðaðir þá hafa 24% fleiri íbúðir verið teknar úr sölu miðað við sama tímabil í fyrra. Þar er mesta aukningin meðal nýrra íbúða en þar hefur framboðið milli ára dregist saman um 56%.

Minna framboð og aukin eftirspurn eftir eignum hefur stytt meðalsölutíma eigna og fer hann ört lækkandi. Á höfuðborgarsvæðinu í júlí tók að jafnaði 43 daga að selja fjölbýli og 50 daga að selja sérbýli sem er í báðum tilfellum lægra en hefur mælst frá upphafi mælinga í byrjun árs 2013.

Tólf mánaða hækkunartaktur íbúðaverðs jókst þónokkuð milli mánaða samkvæmt vísitölu paraðra viðskipta en í júlí mældist hún 7,4% á höfuðborgarsvæðinu, 4,4% í nágrannasveitarfélögum þess og 9,1% annars staðar á landinu. Með pöruðum viðskiptum er átt við muninn á kaupverði fasteignar þegar hún er seld öðru sinni.

 

Hver metmánuðurinn í útlánum á fætur öðrum

Það er ekkert lát á vexti útlána bankanna til heimila. Frá því í apríl á þessu ári hafa hver metin verið slegin á fætur öðru í útlánum til einstaklinga. Sömu þróun er að sjá og undanfarna mánuði þar sem nánast öll ný útlán eru óverðtryggð með breytilegum vöxtum. Aldrei hafa fleiri slík lán verið gefin út og í júlí síðastliðnum þar sem hrein ný óverðtryggð lán hjá bönkunum á breytilegum vöxtum námu rúmlega 45 milljörðum króna.

Ef núverandi verðbólguspá gengur eftir er hagstæðara um þessar mundir að vera með óverðtryggt lán rétt eins og hefur verið bróðurpart tímabilsins frá vormánuðum ársins 2017. Óverðtryggð lán geta því verið góður kostur fyrir marga en mikilvægt er fyrir lántakendur að hafa í huga að greiðslubyrði á óverðtryggðum lánum getur aukist á næstu árum ef vextir fara hækkandi á nýjan leik. Miðað við væntingar markaðsaðila um þróun stýrivaxta Seðlabanka Íslands gæti greiðslubyrðin hækkað um 15% á næstu 2½ árum.

Nýlega var samþykkt frumvarp á Alþingi um svokölluð hlutdeildarlán sem hafa það að markmiði að hjálpa tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Þeir sem uppfylla skilyrðin um hlutdeildarlán þurfa einungis að reiða fram 5% kaupverðs í útborgun, taka 75% lán hjá lánastofnun og geta svo sótt um 20% hlutdeildarlán hjá HMS. Lágtekjuhópar geta síðan sótt um enn hærra hlutdeildarlán eða allt upp í 30%. Útborgun þarf hins vegar alltaf að vera að lágmarki 5% af kaupverði.

Lítilsháttar samdráttur mælist á byggingarmarkaði

Á fyrstu 6 mánuðum þessa árs hefur heildarvelta innan byggingargeirans dregist saman um 10,2% að raunvirði frá sama tímabili 2019. Að teknu tilliti til árstíðabundinna þátta hefur veltan einnig farið lækkandi á milli samliggjandi tímabila allt frá júlí-ágúst 2019. Samhliða því hefur dregið úr fjölda starfandi í greininni.

 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS