8. júlí 2025

Staða húsnæðisáætlana sveitarfélaga 2025

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Öll sveitarfélög landsins hafa nú skilað inn húsnæðisáætlunum fyrir árið 2025
  • Samkvæmt húsnæðisáætlunum er þörf á að byggja 2.500 til 5.000 nýjar íbúðir á ári hverju til ársins 2034
  • Nýjar hagtölur benda til þess að íbúðaþörf verði vel undir miðspá húsnæðisáætlana í ár vegna minni fólksfjölgunar

Byggja þarf 2.500 til 5.000 íbúðir á hverju ári til að mæta fólksfjölgun og lýðfræðilegri þróun til ársins 2034. Þetta kemur fram í húsnæðisáætlunum sveitarfélaganna fyrir árið 2025, en þeim hefur nú öllum verið skilað til HMS. Nálgast má helstu upplýsingar úr húsnæðisáætlununum í mælaborði húsnæðisáætlana á vef HMS.

Húsnæðisáætlunum er ætlað að veita skýra mynd af stöðu húsnæðismála í hverju sveitarfélagi, varpa ljósi á framboð og eftirspurn eftir ólíkum búsetuúrræðum og sýna hvernig sveitarfélög hyggjast bregðast við húsnæðisþörf til skemmri og lengri tíma. Markmiðið er að efla húsnæðisöryggi og stuðla að markvissri uppbyggingu.

Skil á hús­næð­is­á­ætl­un­um dróg­ust hjá mörg­um sveit­ar­fé­lög­um

Skilum á húsnæðisáætlunum fyrir árið 2025 eru nú lokið. Alls hafa 58 af 62 sveitarfélögum samþykkt og skilað inn áætlun, sem ná til rúmlega 99% af íbúum landsins. Þrjú sveitarfélög eiga enn eftir að skila inn staðfestingu á samþykkt þó áætlun þeirra sé tilbúin.

Samkvæmt lögum um húsnæðismál ber sveitarfélögum að skila inn samþykktri húsnæðisáætlun eigi síðar en 20. janúar ár hvert. Í ár tók lengri tíma fyrir mörg sveitarfélög að skila inn staðfestum áætlunum, en almennt gekk samstarf HMS og sveitarfélaganna við áætlanagerðina vel. Skil húsnæðisáætlana hafa gengið betur með hverju ári og er ljóst að ferlið er að styrkjast og þróast í rétta átt.

Fólks­fjölg­un og af­leið­ing­ar fyr­ir íbúða­þörf

Miðspá uppfærðrar húsnæðisáætlunar gerir ráð fyrir fólksfjölgun upp á nærri 90 þúsund (24%) manns á næstu tíu árum og 44 þúsund (11,8%) manns á næstu 5 árum. Að hámarki er gert ráð fyrir 125 þúsund manna fjölgun á tíu ára tímabili, en að lágmarki 54 þúsund manns skv. lágspá. Spá sveitarfélaganna er að fólksfjölgun árið 2025, skv. miðspá þeirra, verði um 9 þúsund manns.

Til að mæta væntri fólksfjölgun gera endurskoðaðar húsnæðisáætlanir ráð fyrir að á árinu 2025 þurfi að byggja á bilinu 2.500 til 5.000 nýjar íbúðir á landsvísu. Íbúðaþörf er metin með hliðsjón af fjölgun íbúa en einnig breytingum á fjölskyldustærð og öðrum þáttum sem hafa áhrif á húsnæðisþörf. Íbúðaþörf næstu fimm ára er talin vera frá 14 þúsund til rúmlega 27 þúsund íbúðir.

Hafa ber í huga að íbúðaþörf og eftirspurn eftir húsnæði er ekki sami hluturinn. Íbúðaþörf myndast í samhengi við lýðfræðilega og félagslega þróun á meðan eftirspurn sveiflast meira eftir efnahagslegum aðstæðum.

Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga ná einnig til skipulagningar og áætlana um lóðaúthlutanir til næstu tíu ára. Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að úthluta lóðum fyrir nærri 34 þúsund íbúðir á næstu fimm árum og nærri 58 þúsund íbúðir á tíu ára tímabili. Á árinu 2025 er áætlað að úthluta lóðum fyrir um 7 þúsund íbúðir, þar af 72% þeirra í fjölbýli, 17% í par-, rað- eða tvíbýli og 11% í einbýlishúsum.

HMS mun end­ur­skoða íbúða­þörf vegna hægr­ar fólks­fjölg­un­ar

Nýjar hagtölur benda til þess að fólksfjölgun í ár verður töluvert undir miðspá sveitarfélaganna í endurskoðuðum húsnæðisáætlunum.

Miðspá sveitarfélaganna gerir ráð fyrir að íbúum myndi fjölga um 9 þúsund á þessu ári, en til að sú spá rætist hefði mátt búast við að íbúum hafi fjölgað um rúmlega 1.300 á fyrsta ársfjórðungi, ef tekið er tillit til árstíðarsveiflna í fólksfjölgun. Samkvæmt Hagstofu fjölgaði íbúum hins vegar aðeins um 540 á fyrsta ársfjórðungi.

HMS mun birta hálfsársuppgjör húsnæðisáætlana í ágúst, þegar nýjar mannfjöldatölur fyrir fyrstu sex mánuði ársins hafa verið birtar hjá Hagstofu. Samhliða því mun HMS endurskoða eigið mat á íbúðaþörf til næstu ára í samræmi við nýjustu hagtölur.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS