13. maí 2025
13. maí 2025
Leiguverðsjá leiðrétt - hefur ekki áhrif á vísitölu leiguverðs
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Reiknivilla í leiguverðsjá leiddi til þess að meðalleiguverð samninga í gildi var vanmetið að meðaltali um 0,6 prósent fyrir árið 2024. Leiguverðsjáin hefur nú verið leiðrétt, en reiknivillan hafði ekki marktæk áhrif á meðalleiguverð samninga í gildi fyrir árið 2025.
Byggir á yfir 24 þúsund samningum
Í leiguverðsjánni má nálgast meðalleiguverð samninga sem skráðir eru í leiguskrá HMS eftir staðsetningu, leiguhúsnæði, tegund leigusamninga og tegund leigusala. Einungis eru birtar upplýsingar úr þeim samningum úr leiguskrá sem eru í gildi og HMS telur nothæfa til tölfræðivinnslu, en þeir eru nú yfir 24 þúsund talsins.
Samkvæmt leiguverðsjánni er markaðsleiga fyrir 60-90 fermetra íbúð með tvö til fjögur herbergi á höfuðborgarsvæðinu um 293 þúsund krónur þessa stundina. Meðalleiguverð sambærilegrar íbúðar í eigu óhagnaðardrifinna leigufélaga og sveitarfélaga er hins vegar 182 þúsund krónur.
Hærra leiguverð gildra leigusamninga eftir leiðréttingu
Fyrir uppfærslu vanmat leiguverðsjáin meðaltal gildra samninga þar sem hún reiknaði meðaltal greiddrar leigu í hverjum mánuði. Sem dæmi gat leiguverð samninga sem tóku gildi um miðjan mánuðinn verið vanmetið um helming, þar sem leiguverðsjáin taldi upphæðina sem leigjendur greiddi í leigu þann mánuðinn í stað þess að telja mánaðarleigu fyrir heilan mánuð í tilteknum samningum.
Leiguverðsjáin hefur verið leiðrétt og sýnir hún nú meðalleiguverð gildra samninga fyrir heilan mánuð. Leiðréttingin hefur mest áhrif á meðalleiguverð gildra samninga fyrir árið 2024, en þeir eru nú að meðaltali 0,6 prósentum hærri en þeir voru fyrir uppfærslu. Leiðréttingin hefur þó engin marktæk áhrif á meðalleiguverð samninga í gildi fyrir árið 2025. Leiðréttingin hefur sömuleiðis engin áhrif á fyrri greiningar HMS, þar sem reiknivillan var í miðlun gagna en ekki í gagnasafni stofnunarinnar.
Öllum þeim sem hafa athugasemdir við leiguverðsjá eða aðrar gagnaþjónustur hjá HMS er bent á að senda tölvupóst á hms@hms.is.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS