31. maí 2023

Fasteignamat 2024

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

HMS kynnti fasteignamat ársins 2024 á fundi hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), Borgartúni 21, miðvikudaginn 31. maí.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tók við verkefnum fasteignaskrár í júlí 2022 og kynnir nú í fyrsta skipti endurmat fasteigna. Fasteignamat fellur vel að öðrum verkefnum HMS svo sem framkvæmd húsnæðisáætlana, upplýsinga um mannvirkjauppbyggingu og greininga á húsnæðismarkaði.

Á fundinum var farið yfir verðþróun á markaði, framboð og húsnæðisþörf. Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs HMS á Akureyri kynnti nýtt fasteignamat fyrir árið 2024. Í kynningu hans kom fram að fasteignamati er ætlað að gefa mynd af markaðsvirði fasteigna. Því er ætlað að endurspegla breytingar á verðþróun síðasta árs og hækkar verðmat íbúðarhúsnæðis að meðaltali um 13,7% á landinu. Hækkanir eru heldur meiri á landsbyggðinni en þar hægði seinna á hækkun á markaðsverði en á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar ívið minna, en gera má ráð fyrir að hækkandi vextir hafi haft meiri áhrif á verð þess, jafnframt því sem uppbygging hefur verið betur í samræmi við þörf.

Helstu niðurstöðurnar eru að fasteignamat hækkar um 11,7%

  • Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 11,7% frá núverandi mati og verður 14,4 billjónir króna, samkvæmt fasteignamati HMS fyrir árið 2024.
  • Fasteignamat íbúða hækkar um 13,7% á milli ára og verður alls 10,6 billjónir króna, þar af hækkar sérbýli um 14,3% á meðan fjölbýli hækkar um 13,1%.
  • Fasteignamat íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 13% á meðan hækkunin er 16,1% á landsbyggðinni.
  • Fasteignamat íbúða hækkar mest í Skagabyggð en þar hækkar íbúðarmatið um 43,9%, í Reykhólahrepp um 43,5% og í Vesturbyggð um 33,6%. Breyting á íbúðamati er neikvæð í Grundarfjarðarbæ þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 0,9%, en minnst hækkun er í Stykkishólmi þar sem hækkunin er 3,3%.
  • Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 4,8% á landinu öllu; um 4,5% á höfuðborgarsvæðinu en um 5,4% á landsbyggðinni.
  • Fasteignamat sumarhúsa hækkar um 12,7% á landinu öllu.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga fjallaði um húsnæðisþörf og stöða sveitarfélaga. Hún lagði áherslu áframhaldandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, húsnæðisáætlanir og rammasamninga sem tæki til að ná markmiðum stjórnvalda. Einnig lýsti hún áhyggjum af vanfjármögnun stofnframlaga í fjármálaáætlun. Mikilvægi fasteignagjalda sem tekjustofns sveitarfélaga.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans flutti erindi um stöðu lántakenda og hvaða úrræði væru til boða hjá íbúðarkaupendum. Staða heimila er ólík eftir aðstæðum og hafa greiðslur lána, rekstrarkostnaður heimila og íbúðarverð hækkað. Því þurfi hærri laun til að standast greiðslumat en á móti komi að undanfarin ár hafi verið kaupmáttaraukning og uppsöfnun sparnaðar.

Hún fjallaði um stöðu lánamarkaðarins, hlutfall verðtryggðra og óverðtryggðra lána, fastra og breytlegra vaxta. Bankinn býður upp á lausnir fyrir heimilin til að mæta þeim áskorunum sem aukin greiðslubyrði veldur eins og að færa lán eða hluta láns yfir í verðtryggt lán. Hún fjallaði um samspil fasteignamats og húsnæðislána. Þá vildi hún koma því á framfæri að bankar væru enn að fjármagna uppbyggingu fasteignaverkefna en vegna hægari sölu myndist meiri birgðir af fjármögnuðum eignum.

Lokainnlegg fundarins átti Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri lánasviðs HMS og var umfjöllunarefni hans húsnæðisuppbygging og áætlanir um frekari uppbyggingu. Fólksfjölgun á landinu hefur undanfarið verið talsvert umfram spár og jafnframt  hefur fjöldi fullbúinna íbúða ekki verið í samræmi við þær áætlanir sem byggja á þeim spám. Vísbendingar eru um að það muni gæta samdráttar í fjölda fullbúinna íbúða á næstu misserum. Ríki og sveitarfélög hafa komist að samkomulagi með rammasamningi um aukið íbúðaframboð á næstu 10 árum með það að markmiði að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði. Markmið samningsins er að byggðar verði nægilega margar íbúðir í samræmi við metna þörf s.s. með framboði byggingarhæfra lóða og fjárstuðningi hins opinbera til uppbyggingar og fjármögnunar á íbúðum á viðráðanlegu verði. Með þessum aðgerðum eru ríki og sveitarfélög að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Fasteignamat sveitarfélaga eftir tegundum eigna

Fasteignamat sveitarfélaga eftir tegundum eigna

Matssvæði íbúðarhúsnæðis 2024

Matssvæði íbúðarhúsnæðis 2024

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS