29. apríl 2025
29. apríl 2025
Slökkviliðsstjórar landsins sameinuðust á Akureyri
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Samstarfssamningur um áframhaldandi þróun og rekstur Brunavarðar undirritaður
- Nýr samstarfshópur stofnaður um uppbyggingu æfingasvæða fyrir slökkvilið landsins
- HMS kynnti tvær nýjar leiðbeiningar um heimildir slökkviliða til eftirlits og aðgangs að húsnæði og hins vegar beitingu stjórnvaldssekta
Aðalfundur Félags slökkviliðsstjóra á Íslandi (FSÍ) var haldinn á Akureyri helgina 11. – 12. apríl síðastliðinn. Félagið vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum slökkviliða um land allt og er fundurinn mikilvægur vettvangur þar sem slökkviliðsstjórar landsins koma saman til að ræða málefni brunavarna, áskoranir í starfi slökkviliða og miðla reynslu sinni á því sviði.
HMS tók virkan þátt í fundinum sem samræmingaraðili og leiðbeinandi á sviði brunavarna. Fulltrúar HMS fluttu erindi um ýmis mál sem snerta starfsemi slökkviliða. Þar má nefna þróun og framtíðarsýn Brunagáttar sem er miðlæg gátt fyrir rauntímaupplýsingar um stöðu slökkviliða á Íslandi, og nýjar áherslur í forvarnarefni fyrir leikskóla. Þá voru einnig kynntar nýjar leiðbeiningar slökkviliða sem snúa að framkvæmd eldvarnaeftirlits og beitingu stjórnvaldssekta sem eru mikilvæg skref í átt að bættum brunavörnum og auknu öryggi í samfélaginu.
Samstarf um rekstur og þróun Brunavarðar
Á fundinum var undirritaður samstarfssamningur milli HMS og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) um áframhaldandi þróun og rekstur kerfisins Brunavarðar, sem heldur utan um eldvarnaeftirlit fyrir öll slökkvilið landsins. Samningurinn byggir á fyrra samstarfi frá árinu 2012 og hefur það markmið að tryggja samræmdan og skilvirkan rekstur kerfisins, ásamt því að þróa kerfið áfram með möguleika á tengingum við Brunagátt, sem mun efla yfirsýn og upplýsingaflæði enn frekar. HMS lýsir mikilli ánægju með samstarfið og sér tækifæri til áframhaldandi framfara á þessu sviði.
Hermann Jónasson, forstjóri HMS, og Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, undirrituðu samstarfssamning um rekstur og þróun Brunavarðar.
Samstarfshópur um uppbyggingu æfingasvæða
Á fundinum kynnti HMS einnig stofnun nýs samstarfshóps um uppbyggingu æfingasvæða fyrir slökkvilið landsins. Stofnun hópsins byggir á niðurstöðum starfshóps um málefni Brunamálaskólans, sem skilaði af sér tillögum árið 2022., Starfshópurinn lagði áherslu á mikilvægi þess að slökkviliðin hafi aðgang að öruggri og fjölbreyttri æfingaaðstöðu sem býður upp á markvissa og samræmda kosti við þjálfun og æfingar.
Nýr samstarfshópur verður skipaður fulltrúum frá slökkviliðunum ásamt sérfræðingum frá HMS. Hann mun kortleggja þarfir, búnað, aðstöðu og möguleika á samstarfi við aðra viðbragðsaðila, meta kostnað og gera tillögur um uppbyggingu og rekstur. Áætlað er að halda fyrsta fund hópsins í maí.
Skýrari rammi fyrir eftirlit og viðurlög
Tvær nýjar leiðbeiningar frá HMS voru kynntar á fundinum og snúa annars vegar að heimildum slökkviliða til eftirlits og aðgangs að húsnæði og hins vegar beitingu stjórnvaldssekta skv. 20. og 34. gr. laga um brunavarnir.
Leiðbeiningarnar eru liður í innleiðingu á lagabreytingum sem samþykktar voru árið 2023, í kjölfar brunans við Bræðraborgarstíg árið 2020 og í ljósi aukinnar tíðni bruna í atvinnuhúsnæði. Með breytingunum hafa slökkvilið nú skýrari heimildir til að sinna eftirliti með búsetu í atvinnuhúsnæði og aðgangs að íbúðarhúsnæði í tengslum við eldvarnareftirlit. Þá er slökkviliðsstjórum jafnframt veitt heimild til að beita stjórnvaldssektum við brot á lögum og reglugerðum um brunavarnir.
Markmiðið er að efla brunavarnir og tryggja öryggi fólks með því að skýra hlutverk og heimildir slökkviliða enn frekar. Leiðbeiningarnar verða gefnar út á vef HMS að loknu samráði við slökkviliðsstjóra og markar það mikilvægt skref í átt að samræmdri og markvissri framkvæmd eftirlits í þágu öryggis.
HMS þakkar slökkviliðs- og varaslökkviliðsstjórum, sem og öðrum stjórnendum slökkviliða landsins, fyrir góðar umræður og samveru og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við slökkviliðin í landinu.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS