Tilkynning um verktöku

Við upphaf verks gera rafverktaki og eigandi samning um lagningu, breytingu eða viðhald raflagnar. Rafverktakinn ber þá ábyrgð á raflögn eða hluti hennar, sem samið var um, uppfylli kröfur reglugerðar um raforkuvirki. Eiganda er ekki heimilt að fá annan aðila til að vinna við raflögnina nema í samráði við rafverktakann eða að höfð séu rafverktakaskipti. Rafverktaki annast öll samskipti við rafveitu, svo sem spennusetningu heimtaugar og beiðni um orkumæli o.fl., fyrir hönd eiganda.

Lokayfirferð af hálfu löggilts rafverktaka

Löggiltir rafverktakar skulu fara yfir eigin verk að þeim loknum samkvæmt skilgreindum verklagsreglum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og tilkynna þau. Þetta gildir bæði um nýjar veitur og breytingar á veitum í rekstri.

Lokatilkynning

Þegar rafverktaki hefur lokið yfirferð raflagnar, tilkynnir hann verklok til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar samkvæmt VLR 3.013 Tilkynningaskyld verk. Rafverktaki afhendir síðan viðskiptavini sínum afrit af lokatilkynningu með móttökukvittun frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eða rafveitu. Þegar um nýbyggingu er að ræða eða breytingu, þar sem þurft hefur leyfi byggingarfulltrúa, ber rafverktaka að afhenda byggingarstjóra afrit af lokatilkynningu.

Skoðanir nýrra neysluveitna

Nýjar neysluveitur og breytingar á þeim, sem rafverktakar hafa tilkynnt, skulu valdar til úrtaksskoðunar með úrtaki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Fjöldi neysluveitna í úrtaksskoðun skal vera allt að 20% (rur 6.6) frá hverjum rafverktaka á ári og aldrei færri en ein. Við val í úrtak er stuðst við útkomu skoðana síðustu tveggja ára og reynt að velja þannig að sem best yfirlit fáist af verkum rafverktaka. Meðalfjöldi athugasemda úr skoðunum neysluveitna er hafður til hliðsjónar og ef athugasemdir eru í þriðja flokki er úrtakshlutfallið haft í hámarki í viðkomandi áhættuflokki.

Lagfæring athugasemda

Hafi komið fram athugasemdir í skoðunum á neysluveitu ber rafverktaka að lagfæra þær, helst strax, en allavega innan þeirra tímamarka sem fram koma á skoðunarskýrslu. Ef rafverktaki lagfærir ekki athugasemdir sendir eigandi eða umráðamaður ábendingu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Endurskoðun

Hafi komið fram athugasemdir í skoðun á neysluveitu getur rafverktaki átt von á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun láti framkvæma endurskoðun á veitunni þegar frestur til lagfæringa er liðinn. Komi fram í endurskoðun að rafverktaki hafi ekki farið að tilmælum samkvæmt athugasemdum óskar stofnunin skýringa á því.