Heimili þitt geymir eld í æðum

Eftirfarandi upplýsingum er ætlað að auðvelda ykkur að kanna ástand raflagna á heimilinu. Rafmagnsprófið gefur vísbendingar um hvort einhverju sé ábótavant. Úr sumu má bæta með betri umgengni en flestar úrbætur kalla á fagþekkingu. Fáið löggiltan rafverktaka í lið með ykkur til að tryggja öryggi fjölskyldunnar. Fúsk getur reynst dýrkeypt og valdið ómældum skaða.

Raf­magnstafl­an

Rafmagnstaflan er hjarta rafkerfisins í hverju húsi. Um hana fer allt rafmagn sem notað er á heimilinu. Öryggin í rafmagnstöflunni eiga að varna því að of mikið álag eða skamm­hlaup valdi tjóni. Í eldri töflum eru bræðivör sem skipta þarf um þegar þau springa en í nýrri töflum eru varrofar sem slá út við bilun eða of mikið álag. Gamlar og illa farnar raf­magns­töflur geta verið hættulegar, ekki síst ef þær eru úr tré eða staðsettar inni í skápum þar sem nóg er um eldsmat. Í slíkum tilfellum er brýnt að láta löggiltan rafverk­taka kanna ástand rafmagnstaflna og gera úrbætur áður en skaðinn er skeður. Bent skal á að í öllum rafmagnstöflum er mikilvægt að hafa skýrar og læsilegar merkingar sem sýna m.a. hvaða öryggi og hversu sterk eru fyrir hvern húshluta.

Bil­un­ar­straums­rof­inn (leka­straums­rof­inn)

Eitt helsta öryggistæki rafkerfisins er bilunarstraumsrofinn. Ef útleiðsla verður í raf­lögn, t.d. vegna bilunar í jarðtengdu tæki, á rofinn að slá út og rjúfa allan straum. Bilunar­straums­rofi kemur ekki að tilætluðum notum nema raflögnin sé jarðtengd og kanna þarf reglulega hvort hann virki með því að ýta á prófhnappinn.

Innstung­ur (tengl­ar)

Við sækjum rafmagn fyrir þau tæki sem við notum í innstungur (tengla). Þær ættu að vera sem víðast í hverri íbúð, helst fleiri en ein í hverju herbergi. Innstungur þurfa að vera vel festar og tengiklær eiga að sitja tryggilega í þeim því að sambandsleysi getur valdið hita. Áríðandi er að skipta strax um brotin lok á innstungum til að varna því að heimilis­fólk eða gestir komist í snertingu við rafmagn. Hægt er að fá innstungur með barnavörn og ýmsan annan búnað til að varna því að óvitar stingi hlutum í þær og skaði sig.

Snúr­ur og klær

Snúrur (lausataugar) flytja rafmagnið frá innstungunum í raftækin. Stundum þarf að nota fjöltengi (fjöltengla) og þá er vert að hafa í huga að ekki er gott að hafa mörg orku­frek raftæki tengd í eitt og sama fjöltengið og að varasamt getur verið að tengja saman fjöltengi. Einnig er varasamt að flytja rafmagn langar leiðir með grönnum fram­leng­ingar­snúrum. Mikilvægt er að þessi rafbúnaður sé heill og óskemmdur. Brotnar klær og snúrur með skemmdri einangrun bjóða hættunni heim. Jafnframt þarf að gæta þess að raf­tæki sem eiga að vera jarðtengd séu tengd í jarðtengdar innstungur og jarðtengingin ekki rofin með ójarðtengdu fjöltengi eða framlengingarsnúru.

Ljós­arof­ar

Á hverjum degi notum við ljósarofa til þess að kveikja og slökkva ljósin. Oft þarf að þreifa eftir rofum í myrkri. Þess vegna er afar brýnt að þeir séu vel festir, heilir og óbrotnir þannig að sem minnst hætta sé á að notandinn fái straum úr þeim. Rofar slitna með tímanum og sam­bandsleysi í þeim getur bæði verið óþægilegt og varhugavert. Nauðsynlegt er að fá lög­giltan rafverktaka til að yfirfara rofa ef vart verður sambandsleysis eða þeir hitna mikið.

Ljós og önn­ur raf­tæki

Oft má ráða af ljósum og öðrum raftækjum hvort eitthvað er athugavert við rafkerfið. Ef skipta þarf oftar um perur í einu ljósastæði en öðru getur það m.a. bent til bilunar. Mikil­vægt er að taka mark á slíkum fyrirboðum og láta löggiltan rafverktaka kanna hvað býr að baki. Ástæða er til að minna á að röng stærð eða gerð af peru getur orsakað bruna vegna þess hita sem myndast í ljósastæðinu.

Tjöru­ein­angr­un

Fram undir 1950 voru flestar rafmagnstaugar sem lagðar voru í hús hér á landi með gúmmí- eða tjörueinangrun. Ekki er gert ráð fyrir að slík einangrun endist mikið lengur en í 25 ár því að hún kolast með tímanum og hættir að einangra. Afleiðingin er skamm­hlaup með neistaflugi sem getur kveikt í. Yfirleitt koma skemmdir á einangrun fyrst í ljós í tengi­dósum eða á öðrum tengistöðum. Ef þið hafið grun um að raflögnin hjá ykkur sé frá þeim tíma þegar enn var notuð tjöru- og gúmmíeinangrun er rétt að gera ráðstafanir til að endurnýja rafkerfið.

Plast­ein­angr­un

Upp úr 1950 tók plasteinangrun við af gúmmí- og tjörueinangruninni. Plastið endist mun betur en eldri einangrun, þó gefur plasteinangrun sig með tímanum á sama hátt og tjöru­ein­angrun. Eins getur plasteinangrun rafmagnstauga gefið sig og molnað utan af vírunum ef taug hitnar óeðlilega mikið, slíkt gerist t.d. ef grönn taug er látin flytja meiri straum en hún er gerð fyrir. Öryggin í rafmagnstöflunni eiga að koma í veg fyrir að slíkt gerist í föstum raflögnum, svo framarlega sem ekki eru notuð sterkari öryggi en raf­lagn­irnar eru gerðar fyrir.

Raf­magns­próf

Svarið eftirfarandi spurningum samviskusamlega og strikið í eða dragið hring um það svar sem þið teljið eiga við hjá ykkur.

Rafmagnstaflan

Er rafmagnstaflan gömul trétafla? Já Nei

Sést í bera víra eða tengingar í töflunni? Já Nei

Er búnaður töflunnar skemmdur eða brotinn? Já Nei

Springa öryggin oft eða slá út? Já Nei

Eru lélegar eða engar merkingar í töflunni? Já Nei

Er rafmagnstaflan án bilunarstraumsrofa? Já Nei

Bilunarstraumsrofinn (lekastraumsrofinn)

Slær rofinn stundum út án sýnilegrar ástæðu? Já Nei

Er áfram rafmagn á íbúðinni eftir að þú hefur ýtt á prófhnappinn á bilunarstraumsrofanum? Já Nei

Hefur orðið bilun í rafkerfi eða raftæki en bilunarstraumsrofinn ekki slegið út? Já Nei

Innstungur (tenglar)

Eru sumar innstungur á heimilinu ójarðtengdar? Já Nei

Eru brotin lok á innstungum? Já Nei

Eru mörg raftæki tengd í eina innstungu? Já Nei

Eru klær „lausar“ í einhverjum innstungum? Já Nei

Eru innstungur illa festar á vegg eða í veggdósir? Já Nei

Ljósarofar

Eru brotin lok eða brotnir takkar á rofum? Já Nei

Ber á sambandsleysi í ljósarofum? Já Nei

Eru einhverjir rofar illa festir? Já Nei

Eru einhverjir rofar heitir? Já Nei

Snúrur (lausataugar)

Eru snúrur í gangvegi eða undir gólfteppum? Já Nei

Liggja snúrur þar sem þær geta klemmst, t.d. milli stafs og hurðar? Já Nei

Er gat eða sjáanlegt slit á snúrum? Já Nei

Er þannig gengið frá klóm að sést í litaða einangrun víranna í snúrunni? Já Nei

Eru tæki sem eiga að vera jarðtengd í ójarðtengdum innstungum? Já Nei

Liggja snúrur í haug eða upprúllaðar þegar þær eru í notkun? Já Nei

Ljós og önnur raftæki

Eru sterkari perur í ljósum en uppgefinn hámarksstyrkur segir til um? Já Nei

Eru sterk ljós (t.d. kastarar) staðsett nálægt brennanlegum efnum? Já Nei

Springa perur oftar í einu ljósastæði en öðru? Já Nei

Eru loftljós illa uppsett og hanga á tengingum? Já Nei

Niðurstaða

Ef þið svarið öllum spurningunum neitandi bendir það til þess að ágætt ástand sé á raflögnum og rafbúnaði á heimili ykkar.

Eftir því sem já-unum fjölgar er meiri ástæða til að sýna aðgát og fá löggiltan rafverktaka til að gera úttekt á heimilinu.

Eitt eða fleiri já í hverjum hluta bendir til þess að raflagnir á heimilinu séu ekki eins og þær eiga að vera og tafarlaust þurfi að kalla til löggiltan rafverktaka.

Brotnar klær og snúrur með skemmdri einangrun bjóða hættunni heim.

Miklar breytingar hafa orðið á reglum um raflagnir frá því byrjað var að nota rafmagn hér á landi. Eldri raflagnir eru ekki endilega hættulegar en nauðsynlegt getur verið að fá löggilta rafverktaka til að gera úttekt á þeim og fara að tillögum um úrbætur. Mestu skiptir samt að við séum meðvituð um þær hættur sem rafmagnið býr yfir. Við tökum óþarfa áhættu með því að fresta lagfæringum á því sem er ábótavant í rafbúnaði heimilisins.

Heimili þitt geymir eld í æðum

Fræðslubæklingur

Heimili þitt geymir eld í æðum

Fræðslubæklingur