Háspenna ­lífshætta

Leið­bein­ing­ar um vinnu í námunda við há­spennu­lín­ur

Þetta efni er ætlaður framkvæmdaaðilum og verktökum sem vinna í námunda við háspennulínur. Markmiðið er að koma í veg fyrir slys eða tjón vegna vinnu í nálægð við háspennu og að umráðamenn eða stjórnendur vinnuvéla og verktakar séu vel upplýstir um öryggis- og hættufjarlægðir.

Áður en fram­kvæmd­ir hefj­ast

Ekki má hefja vinnu í nánd við háspennulínur, nema að fyrir liggi heimild og upplýsingar um línuna frá eiganda hennar eða ábyrgðarmanni viðkomandi rafveitu.

Afmarka skal vinnusvæðið með öryggisborðum eða öðrum viðeigandi tálmum. Ef talin er þörf á að merkja svæðið sérstaklega skal það einnig gert.

Afar mikilvægt er að þeir sem starfa nærri háspennulínum, afli sér upplýsinga um þá hættu sem getur skapast við slíkar aðstæður.

Þegar unnið er með vinnuvélum nálægt háspennulínum er nauðsynlegt að fylgja leiðbeiningum um fjarlægðarmörk samkvæmt töflu 1.

Uppgefnar fjarlægðir gilda fyrir vinnuvélar í heild og einstaka hluta þeirra s.s. lyftiarma, burðarvíra o.þ.h. og einnig fyrir þá byrði sem tengist vélunum hverju sinni.

Enginn má aka vinnuvélum í námunda við háspennulínur fyrr en verkstjórnandinn hefur tilkynnt að nauðsynlegar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar.

Akið ekki vinnuvélum í námunda við háspennulínur nema á undan fari kunnáttumaður til að ákvarða fjarlægðir.

Reynið ávallt að hafa loftlínur í sjónmáli þegar vélarnar eru á hreyfingu.

Hafið í huga að erfitt er að gera sér grein fyrir hæð lína með því að horfa á þær.

Þurfi að lyfta byrði yfir háspennulínu skal áður rjúfa spennu af henni og jarðtengja.

 • Hættufjarlægð er sú fjarlægð frá leiðara sem hætta er á ljósboga frá háspennulínu. Ekki má fara nær leiðara án þess að hann sé aftengdur og/eða gerður spennulaus.
 • Öryggisfjarlægð er sú fjarlægð frá leiðara þar sem gæta þarf sérstaklega að öryggisráðstöfunum.

Ör­ygg­is­fjar­lægð­ir

Mynd 1: Seilingar­svæði vinnuvélar

Hafa þarf í huga að hluti vinnuvélar eða byrðis getur farið inn fyrir öryggis- og hættusvæði við tilfærslu.

Tafla 1Öryggisfjarlægð háspennulínu (mál B), vegna tímabundinnar staðsetningar bygginga og vinnuvéla, s.s. skurðgrafa og krana. Sjá mynd 2.
RekstrarspennaDæmi um hæfilega öryggisfjarlægð
11 kV3 m
19 kV3 m
33 kV3 m
66 kV3 m
132 kV4 m
230 kV5 m
400 kV7 m

Mynd 2: Svæði og fjarlægðir í kringum háspennulínur.

A – Hættufjarlægð: Fjarlægð frá leiðara að ytri mörkum hættusvæðis.

B – Öryggisfjarlægð: Fjarlægð frá leiðara að ytri mörkum öryggissvæðis.

Snerti einhver hluti vinnuvélar spennuhafa loftlínu fylgið þá eftirfarandi reglum: Snertið alls ekki tækið og jörðina samtímis.

Sé vélinni stjórnað úr stjórnhúsi sem á henni er, haldið þá kyrru fyrir í stjórnhúsinu. Reynið án utanaðkomandi hjálpar að losa vélina úr snertingu við línuna.

Ef ekki er hægt að losa vélina með eigin afli og tilfæringum úr snertingu við línuna, haldið þá kyrru fyrir í henni. Aðhafist ekkert fyrr en tryggt er og staðfest að það sé óhætt, þ.e. að spenna hafi verið tekin af línunni og hún jarðtengd.

Ef hættulegt virðist að vera kyrr í vélinni, t.d. vegna elds eða af öðrum orsökum, stökkvið þá út úr vélinni og hoppið jafnfætis frá henni. Varist að snerta vélina og jörð samtímis.

Komið skilaboðum til annarra starfsmanna um að snerta ekki vélina, stög eða annað sem henni er tengt.

Sé vinnuvél stjórnað utanfrá, snertið þá ekki stjórntæki eða aðra hluta hennar.

Komið boðum til viðkomandi rafveitu svo fljótt sem auðið er um að rjúfa spennu af línunni. Nauðsynlegt er að yfirmenn rafveitu og framkvæmda á svæðinu, fái strax vitneskju um óhappið. Þangað til hjálp berst þarf einhver starfsmaður að vera nálægur til þess að vara aðra við hættunni.

Að vinna ná­lægt há­spennu­lín­um er dauð­ans al­vara

Áður en framkvæmdir með vinnuvélum hefjast:

 1. Er fyrirliggjandi heimild og upplýsingar um línuna frá ábyrgðarmanni viðkomandi rafveitu?
 2. Er áhættumat fyrirliggjandi?
 3. Fylgja leiðbeiningum um fjarlægðarmörk samkvæmt töflu.
 4. Eru upplýsingar til staðar um hættur sem geta skapast við að starfa nærri háspennulínum?
 5. Afmarka með öryggisborða öruggt svæði.
 6. Hafa ávallt háspennulínuna í sjónmáli þegar vélin er á hreyfingu.
 7. Athugið að erfitt er að gera sér grein fyrir hæð lína með því að horfa á þær.
 8. Athugið að slys getur orðið án snertingar við háspennulínur.
 9. Hefja ekki vinnu fyrr en verkstjórnandi hefur tilkynnt að nauðsynlegar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar.

Viðbrögð við snertingu á háspennulínu:

 1. Reyna að færa vélina fyrir eigin vélarafli.
 2. Koma skilaboðum til rafveitu um óhappið.
 3. Halda kyrru fyrir í vélinni ef ekki tekst að losa hana frá línunni.
 4. Ef eldur kemur upp í vélinni, hoppa þá jafnfætis út og í örugga fjarlægð.
 5. Koma skilaboðum til annarra starfsmanna um að snerta ekki vélina.

Viðbrögð við rafmagnsslysi:

 • Ef maður er í snertingu við rafmagn má ekki snerta hann.
 • Ef ekki er hægt að rjúfa straum strax skal hringja í rafveituna eða Neyðar­línuna í síma 112.
 • Fylgja leiðbeiningum um hjálp í viðlögum.
 • Tilkynna Vinnueftirlitinu um slysið.