Rafmagnstaflan er hjarta rafkerfisins í hverju húsi. Um hana fer allt rafmagn sem notað er í húsinu og því getur verið um mikið álag að ræða. Gamlar og illa farnar rafmagnstöflur geta verið hættulegar, ekki síst ef þær eru úr tré eða staðsettar þar sem nóg er um eldsmat, t.d. inni í skáp. Nauðsynlegt er að láta löggiltan rafverktaka kanna ástand eldri rafmagnstaflna og gera úrbætur áður en tjón hlýst af.

Hvers vegna geta raf­magns­töfl­ur úr tré ver­ið hættu­leg­ar?

  • Timbur er brennanlegt efni
  • Timbrið í töflunum þornar yfir tíma og verður enn brennanlegra
  • Mikill rafstraumur fer um rafmagnstöflur – allt rafmagn heimilisins, þ.m.t. bílhleðslustöðin
  • Margir áratugir síðan rafmagnstöflur úr tré voru settar upp – eru úr sér gengnar og úreltar
  • Ekki í samræmi við núgildandi reglur að rafmagnstöflur séu úr tré – ekki leyft í nýjum og endurnýjuðum húsum
  • Öryggisbúnaður í gömlum töflum getur verið úr sér genginn og öryggi því ábótavant