Mannvirkjaskrá

Í mannvirkjaskrá er að finna upplýsingar um stærðir og eiginleika mannvirkja, framvindu á byggingartíma, upplýsingar sem nýtast við eftirlit með mannvirkjagerð, svo sem byggingarleyfi, úttektir byggingarstjóra og byggingarfulltrúa. Jafnframt er ætlunin að mikilvægar upplýsingar um það sem gerist á líftíma mannvirkja vistist í mannvirkjaskrá, hvort sem það er leyfis- eða tilkynningaskylt eða ekki.

Um Mannvirkjaskrá

Mannvirkjaskrá inniheldur nákvæmar upplýsingar um mannvirki á Íslandi og verður t.d. hægt að skoða fjölda íbúða í byggingu eftir byggingarstigi. Mannvirkjaskráin mun auðvelda yfirsýn á húsnæðismarkaði og gera stjórnvöldum og öðrum hagaðilum kleift að bæta áætlanagerð og koma í veg fyrir miklar framboðssveiflur með tilheyrandi verðhækkunum húsnæðis og áhrifum á verðbólgu. Þá verður í framtíðarútgáfum mannvirkjaskrár auðveldara fyrir almenning að nálgast upplýsingar sem máli skipta um það sem gerst hefur á líftíma bygginga, eins og breytingar á húsum og viðhaldssögu. Þetta mun m.a. styrkja stöðu kaupenda í fasteignaviðskiptum.

Mannvirkjaskrá er einnig mikilvægt stjórntæki á sviði eftirlits með mannvirkjagerð. Með henni verður stjórnsýsla gagnsærri og eftirlit auðveldara sem mun að mati sérfræðinga stuðla að meiri gæðum í mannvirkjagerð og þar af leiðandi gera mannvirki á Íslandi öruggari gagnvart hvers kyns tjóni, bruna eða öðru slíku.