Hvað er algild hönnun og aðgengi?
Algild hönnun er ferli sem virkjar og styrkir íbúa samfélagsins með því að bæta mannlegan árangur, heilsu, vellíðan og félagslega þátttöku. Algild hönnun gerir lífið auðveldara, heilsusamlegra og vingjarnlegra fyrir alla.
Markmiðið er að valdar lausnir (heildin) henti sem flestum þannig að sérlausnir fyrir ákveðna hópa heyri til undantekninga. Að öll hönnun og aðgengi að upplýsingum byggi á gildum um jafnræði, jafna möguleika á þátttöku í samfélaginu og virðingu fyrir margbreytileika mannsins.
Grundvallaratriðið er að það er ekki fötlunin eða skerðingin sjálf sem er hindrun heldur er það manngerða umhverfið sem hindrar fólk með fötlun í að geta tekið þátt eða komist um, til jafns við aðra.
Mismunandi geta til þátttöku er hluti af margbreytileikanum og getur átt við okkur öll oftar en einu sinni á ævinni, til dæmis sem börn, vegna slyss eða sjúkdóma, hvort sem það er tímabundið eða varanlegt og/eða vegna öldrunar.
Aðgengi eitt og sér getur verið takmarkandi eða takmarkað og þýðir ekki að um algilda hönnun sé að ræða. Algild hönnun getur aftur á móti ekki staðið ein og sér án aðgengis.
Skilgreiningar á orðasamböndunum er að finna í mannvirkjalögunum og í byggingarreglugerðinni:
Aðgengi fyrir alla: Með aðgengi fyrir alla er átt við að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða. Jafnframt séu sjónarmið algildrar hönnunar höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra.
Algild hönnun: Hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. Algild hönnun útilokar ekki hjálpartæki fyrir [fatlað fólk]1 sé þeirra þörf.