Lög og reglugerðir um húsnæðisbætur
Lög um húsnæðisbætur nr. 75/2016
Reglugerð um húsnæðisbætur nr. 1200/2016, með síðari breytingum.
Hér gefur að líta reglugerðina, að teknu tilliti til breytinga.
Kærur og málsmeðferð
Ákvarðanir HMS um húsnæðisbætur eru kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Einstaklingur hefur einnig þann kost að kvarta til Umboðsmanns Alþingis ef hann telur sig hafa verið beittan rangindum af hálfu HMS. Það er þó almennt ekki hægt að kvarta til Umboðsmanns Alþingis fyrr en úrskurðarnefnd hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Málsaðilar geta einnig lagt ágreining sinn undir dómstóla með venjulegum hætti.
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Úrskurðarnefnd velferðarmála starfar á grundvelli laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála sbr. einnig 6. gr. laga um húsnæðisbætur. Nefndin er sjálfstæð kærunefnd og hlutverk hennar er að kveða upp úrskurði í kærumálum á sviði velferðarmála, m.a. um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga um húsnæðisbætur.
Ef leigjandi sættir sig ekki við ákvörðun HMS getur hann kært ákvörðun HMS til úrskurðanefndarinnar. Úrskurðir nefndarinnar fela í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun.
Kæra til úrskurðanefndar
Kæra til úrskurðarnefndarinnar skal vera skrifleg. Kærueyðublöð má nálgast á vefsíðu úrskurðarnefndar velferðarmála.
Það er ekki nauðsynlegt að nota stöðluð kærueyðublöð en kæra til nefndarinnar þarf að vera skrifleg. Þá þurfa nauðsynlegar upplýsingar að koma fram í kæru. t.d.:
- Upplýsingar um kæranda (nafn, kennitala, símanúmer, heimilisfang og netfang)
- Upplýsingar um ákvörðun HMS sem kærð er. (Æskilegt er að með kæru fylgi afrit af ákvörðun.)
- Kröfugerð (Hvaða niðurstöðu er kærandi að sækjast eftir með kæru sinni?)
- Rökstuðningur fyrir kæru (Sjónarmið kæranda og rök fyrir því að kærunefnd ætti að fallast á kröfur)
Kærufrestur
Frestur til að kæra ákvarðanir HMS til úrskurðarnefndarinnar er þrír mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun HMS.
Málsmeðferð fyrir kærunefnd
Mál fyrir úrskurðarnefndinni hefst ávallt á kæru frá umsækjanda.
Þegar kæra berst kærunefnd óskar nefndin eftir öllum gögnum í málinu frá HMS. Þá er HMS veittur frestur til að færa fram umsögn í málinu þar sem fram koma málavextir og lagarök fyrir ákvörðun HMS.
Úrskurðarnefndin skal tryggja að aðili máls eigi þess kost að tjá sig áður en nefndin úrskurðar í málinu. Nefndin sendir því afrit af gögnum málsins og gefur kæranda færi á að kynna sér málsgögn og tjá sig um umsögn HMS. Þegar allar upplýsingar eru taldar liggja fyrir er málið tekið til úrlausnar og kveðinn upp úrskurður í málinu.
Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni er almennt skrifleg en nefndin getur þó kallað málsaðila á sinn fund. Málsmeðferð fyrir nefndinni er kæranda að kostnaðarlausu.
Úrskurðarnefndin leitast við að kveða upp úrskurð innan þriggja mánaða eftir að henni berst mál. Kæra til nefndarinnar frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
Úrskurðir
Úrskurðir nefndarinnar eru birtir á vefnum urskurdir.is.
Nöfn einstaklinga og heimilisföng koma ekki fram við opinbera birtingu á úrskurðum nefndarinnar.