Eftir að nauðungarsölubeiðni hefur verið send til sýslumanns þá er málið tekið fyrir hjá sýslumanni.  Um er að ræða þrjár fyrirtökur sem eru í daglegu máli kallaðar:

  • Fyrsta fyrirtaka
  • Byrjun uppboðs 
  • Framhald uppboðs

Nánari upplýsingar um uppboð og nauðungarsölur hjá Sýslumanni á vefnum syslumenn.is:

Lögum samkvæmt getur gerðarbeiðandi (sá sem óskar eftir uppboði) ekki frestað fyrstu fyrirtöku eða framhaldi uppboðs hjá sýslumanni. Gerðarbeiðandi getur einungis frestað byrjun uppboðs og þá aðeins eftir að fyrsta fyrirtaka hefur farið fram og áður en byrjun uppboðs hefst.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er heimilt að fresta byrjun uppboðs í fyrsta skipti án greiðslu enda berist beiðni um það frá viðskipavini og það sé forsvaranlegt að veita slíkan frest. HMS er heimilt að fresta byrjun uppboðs aftur samkvæmt beiðni ef minnsta kosti 15% vanskilanna er greitt í hvert sinn auk þess sem staðið hefur verið í skilum með greiðslur sem samsvara mánaðarlegum gjalddögum frá fyrri frestun.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun frestar ekki byrjun uppboðs ef það getur orðið til þess að beiðnin hans falli niður.

Beiðnum um frestun á byrjun uppboðs verður þó að jafnaði hafnað ef:

  • Viðkomandi hefur áður fengið afturköllun á uppboðsmáli og ekki gert samning um uppgjör eftirstöðva vanskila eða ekki staðið við slíkan samning
  • Viðkomandi býr ekki í eigninni
  • Erfitt hefur reynst að birta greiðsluáskorun

Athygli er vakin á því að ef aðrir gerðarbeiðendur eru með nauðungarsölubeiðni inni hjá sýslumanni þá þurfa þeir að samþykkja frestun á byrjun uppboðs til þess að uppboðinu verði frestað.

Óskað er eftir frestun á nauðungarsölubeiðni með því að:

  • Senda erindi á netfangið innheimta@hms.is 
  • Hafa samband við ráðgjafa í síma 440-6400
  • Koma í afgreiðslu HMS í Borgartúni 21, Reykjavík