Vegvísir að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar

Vegvísir að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar

Vegvísir að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar

Vegvísir að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar

Að­drag­andi og út­gáfa veg­vís­is

Að­drag­andi og út­gáfa veg­vís­is

Öflugar og samfelldar mannvirkjarannsóknir eru mikilvægar fyrir mannvirkjageirann og samfélagið allt, enda eru þær forsenda þess að hægt sé að byggja betri byggingar og mæta þeim fjölmörgu samfélagslegu áskorunum sem tengjast mannvirkjagerð. Þannig leiða rannsóknir og nýsköpunarstarfsemi í ljós nýjar lausnir og upplýsingar, sem stuðla meðal annars að aukinni þekkingu, faglegri vinnubrögðum, vistvænni mannvirkjum, byggingum með lengri líftíma auk lægri byggingar- og viðhaldskostnaðar.

Á sama tíma heyrist ákall um aukið fjármagn og skýrara skipulag þegar kemur að sjálfu rannsóknaumhverfi mannvirkjageirans. Því miður er ekki hægt að svara því ákalli með skýrum hætti að svo stöddu, þar sem fyrirliggjandi upplýsingar og forsendur eru takmarkaðar.

Vegvísi að mótun rannsóknaumhverfi mannvirkjagerðar er ætlað að bæta úr því en hann mun varða leiðina 2024-2025 svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um framtíðarskipan málaflokksins. Niðurstöðurnar byggja meðal annars á: samtölum við hátt í 70 hagaðila, aðgerð 9 í hönnunarstefnu, aðgerð 2.9. í húsnæðisstefnu og samráði við innviðaráðuneytið (IRN), háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið (HVIN), menningar- og viðskiptaráðuneytið (MVF), Skipulagsstofnun, Tæknisetur, Samtök iðnaðarins (SI), Verkfræðingafélag Íslands, Arkitektafélag Íslands, Hönnunarmiðstöð, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Í samráðinu fléttuðust skipulagsmál inn í verkefnið, sem greind verða sérstaklega í tengslum við fyrstu aðgerð vegvísisins.

Í vegvísinum er rannsóknaumhverfi mannvirkjagerðar skoðað út frá þremur þáttum:

  1. Umgjörð varðandi rannsóknavettvanginn, þ.e. framkvæmd rannsókna,
  2. umgjörð varðandi miðlun og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna og
  3. umgjörð varðandi prófanir á byggingarvörum og eftirlit með framleiðslustýringu.

Niðurstöður vinnunnar leiddu í ljós fjölda úrbótatækifæra innan þessara þriggja þátta og eru alls 16 aðgerðir skilgreindar til að mæta þeim. Meðal aðgerða má nefna skilgreiningu á rannsóknaþörf og -stefnum á sviðum mannvirkja-, húsnæðis- og skipulagsmála, greiningu á rannsóknabúnaði, gerð sviðsmynda fyrir rannsóknavettvang mannvirkjagerðar, endurskoðun á ýmsu námsefni og gerð skýrra krafna varðandi staðfestingu eiginleika á endurnotuðum byggingarvörum.

Við útgáfu vegvísisins var verkefnastjórn vegvísisins mynduð af fulltrúum IRN, HVIN, MVF, HMS og SI til að tryggja framkvæmd aðgerðanna í framhaldinu. Verkefnastjóri er á vegum HMS.

Vegvísirinn kom út í mars 2024. Upptöku frá útgáfuhófi vegvísisins má nálgast hér.

Eftirfarandi mynd segir betur frá aðdraganda á útgáfu vegvísisins.

Op­in­ber um­fjöll­un

Hér má finna hlekki á viðburði, fréttir, viðtöl og greinar sem tengjast Vegvísi að mótun rannsóknaumhverfis að mannvirkjagerð.

Rangt bygg­ing­ar­efni oft­ast val­ið af van­þekk­ingu, ekki ill­um hug

Viðtal við Þórunni Sigurðardóttur, HMS í Bítinu á Bylgjunni, 16. ágúst 2024.

Töl­um um mann­virkja­rann­sókn­ir

Grein Þórunnar Sigurðardóttur, HMS sem birtist á Vísi 14. ágúst 2024.

Hvern­ig byggj­um við bet­ur?

Grein Þórunnar Sigurðardóttur, HMS sem birtist í Morgunblaðinu 17. apríl 2024.

Út­gáfu­hóf Veg­vís­is að mót­un rann­sóknaum­hverf­is mann­virkja­gerð­ar í mars 2024

HMS efndi til hófs í tilefni af útgáfu á Vegvísi að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar þann 12. mars 2024. Á fundinum kynntu sérfræðingar HMS Vegvísinn, en einnig komu fram Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Sunna Ólafsdóttir Wallevik stofnandi og framkvæmdastjóri Gerosion. 

Upptöku af fundinum má nálgast hér.