Vegvísir að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar
Vegvísir að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar
Vegvísir að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar
Vegvísir að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar
16 aðgerðir vegvísis
16 aðgerðir vegvísis
Aðgerðirnar í Vegvísi að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar eru sextán talsins.
Aðgerðirnar eru flokkaðar í þrjá hópa:
- Umgjörð varðandi rannsóknavettvanginn, þ.e. framkvæmd rannsókna,
- umgjörð varðandi miðlun og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna og
- umgjörð varðandi prófanir á byggingarvörum og eftirlit með framleiðslustýringu.
Yfirlit yfir aðgerðirnar sextán
Nánari upplýsingar um hverja aðgerð má nálgast með því að smella á viðkomandi aðgerð.
1. Rannsóknavettvangur
Úrbótatækifæri: Rannsóknaþörf og stefnur um rannsóknir á sviðum mannvirkja-, húsnæðis- og skipulagsmála til skemmri eða lengri tíma eru óljósar.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Á grunni 2. mgr. 3. gr. laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stofnar HMS Vísindaráð mannvirkjagerðar með fulltrúum vísindasamfélagsins, stjórnvalda og atvinnulífs. Vísindaráðið greinir núverandi rannsóknaþörf og markar stefnu um rannsóknir á sviðum mannvirkja- og húsnæðismála, m.a. með hliðsjón af húsnæðisstefnu, landsskipulagsstefnu og loftslagsmarkmiðum Íslands og þverfaglegra tenginga ólíkra vísindagreina. Samhliða verður mótað verklag um greiningu á rannsóknaþörf og -stefnum til framtíðar. Skipulagsstofnun ber ábyrgð á að sambærileg vinna fari fram á öðrum vettvangi m.t.t. skipulagsmála. Samhliða verða greindir snertifletir mannvirkja- og skipulagsmála ásamt samlegðaráhrifum í rannsókna- og nýsköpunarumhverfi þeirra. Í framhaldinu verður æskilegur farvegur mótaður til að stuðla að skýrari heildarsýn og viðeigandi samþættingu á rannsókna- og nýsköpunarumhverfi í þessum tveimur málaflokkum, með hliðsjón af aðgerð 9 í þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026.
Markmið aðgerðar: Að hafa yfirsýn yfir þörf og stefnu rannsókna á sviðum mannvirkja-, húsnæðis- og skipulagsmála hverju sinni.
Tillaga að ábyrgðaraðila: HMS og Skipulagsstofnun.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Fulltrúar stjórnvalda, vísindasamfélags og atvinnulífs.
Tími: Lokið fyrir árslok 2024, a.m.k. hvað mannvirkjamálin varðar.
Úrbótatækifæri: Takmarkaður sýnileiki rannsóknaþarfar, rannsóknastefnu, rannsókna í vinnslu og niðurstaðna lokinna rannsókna. Brýnt að það sé samhæfð, miðlæg og gjaldfrí útgáfa á rannsóknaafurðum. Jafnframt er mikilvægt að vísindaráðið eigi fast bakland hjá opinberri stofnun sem tryggir m.a. samfellu í starfi ráðsins yfir lengri tíma.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Stofna miðlægan vettvang þar sem birt verða: rannsóknastefna Vísindaráðs mannvirkjagerðar, rannsóknaþörf, rannsóknir í vinnslu og niðurstöður lokinna rannsókna.
Markmið aðgerðar: Auka sýnileika og aðgengi að rannsóknastefnu, rannsóknaþörf, rannsókna í vinnslu eða niðurstaðna lokinna rannsókna. Þarf að vera auðvelt að leita að og finna útgefið efni og að það sé læsilegt og aðgengilegt fyrir sem flesta. Tryggja traust bakland og samfellu í starfi Vísindaráðs mannvirkjagerðar.
Tillaga að ábyrgðaraðila: HMS.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Vísindaráð mannvirkjagerðar, Skipulagsstofnun, menntastofnanir, rannsakendur á sviði mannvirkjagerðar o.fl.
Tími: Lokið fyrir lok árs 2024.
Úrbótatækifæri: Tölfræði yfir byggingargalla (tíðni, eðli, orsakir og afleiðingar) er ekki til og því erfitt að sinna markvissu forvarnastarfi til að koma í veg fyrir algengustu gallana.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Búa til farveg til að safna upplýsingum um byggingargalla með markvissum hætti m.a. í gegnum dómskjöl, tryggingafélög og af markaði. Halda utan um tölfræði og greina orsakir. Skoða erlendar fyrirmyndir. Vera í samskiptum við Vísindaráð mannvirkjagerðar um rannsóknaþörf vegna byggingargalla. Vera í samskiptum við menntastofnanir og eftirlitsaðila og til að koma í veg fyrir algenga galla hverju sinni með aukinni fræðslu og eftirliti.
Markmið aðgerðar: Að ná yfirsýn yfir byggingargalla og fara í markvissar aðgerðir til að koma í veg fyrir þá.
Tillaga að ábyrgðaraðila: HMS.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Samtök iðnaðarins, tryggingarfélög og fleiri.
Tími: Vinna hafin. Lokið fyrir maí 2025.
Úrbótatækifæri: Ekki liggur fyrir yfirlit yfir þann rannsóknabúnað fyrir mannvirkjarannsóknir sem er til staðar hérlendis og hvert ástand hans er. Þá er samtal um tækifæri til samnýtingar á rannsóknabúnaði takmarkað milli innlendra og erlendra eigenda á rannsóknabúnaði og mögulegra notenda. Í framhaldi af mótun rannsóknastefnu í mannvirkjagerð, sbr. aðgerð 1.1.a., verður þörf á að greina hvaða búnað að lágmarki þurfi hér á landi til að hægt verði að uppfylla rannsóknastefnu Vísindaráðs mannvirkjagerðar með faglegum hætti og í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Greina núverandi rannsóknabúnað og -aðstöðu, meta þörf á uppfærslu og innkaupum á nýjum búnaði, m.a. með tilliti til þess að hægt verði að fylgja rannsóknastefnu vísindaráðsins með faglegum hætti og í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur. Greina hvort sá búnaður þurfi að vera til staðar á landinu eða hvort nóg sé að fá aðgang að honum í nágrannaríkjum. Hafa þarf í huga mikilvægi þess að hæfir umsjónarmenn hafi það að starfi að tryggja að búnaður haldi virkni og áreiðanleika og að aðstaða til rannsókna sé fullnægjandi. Greina tækifæri til styrkumsókna til uppbygginga rannsóknainnviða, t.d. í Innviðasjóð hjá Rannís ásamt því að greina möguleg samstarfstækifæri við nágrannaríki varðandi samnýtingu á rannsóknabúnaði. Athuga samlegð við samstarf um nýtingu rannsóknainnviða á Íslandi, á vegum HVIN. Tryggja samtal erlendra og innlendra aðila sem búa yfir tækjakosti til rannsókna í mannvirkjagerð, svo sem háskóla, Tækniseturs, Vegagerðarinnar, Landsvirkjunar, verkfræðistofa, steypuframleiðenda og annarra aðila á markaði til að bæta aðgengi allra að þeim búnaði sem er til staðar.
Markmið aðgerðar: Að fá yfirsýn yfir fyrirliggjandi rannsóknabúnað í mannvirkjagerð, ástand hans og þörf á uppfærslu og innkaupum á nýjum tækjum og tryggja betra aðgengi að slíkum búnaði, svo að mannvirkjarannsóknir verði framkvæmdar í aðstæðum sem uppfylla alþjóðlegar kröfur.
Tillaga að ábyrgðaraðila: Verkefnastjórn vegvísis.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Tæknisetur, háskólar og aðrir eigendur rannsóknabúnaðar.
Tími: Lokið fyrir maí 2025.
Úrbótatækifæri: Aðgengi að þeim opinbera stuðningi sem er til staðar í dag fyrir rannsóknir og nýsköpun í mannvirkjageiranum er óljóst. Ef tryggja á samfelldar rannsóknir, og það í samræmi við rannsóknastefnu, þarf að tryggja aðgengi að stöðugu fjármagni. Askur – mannvirkjarannsóknasjóður hefur reynst vel fyrir rannsókna- og nýsköpunarumhverfi mannvirkjageirans en fjármagn hans er lítið og starfsemi hans til framtíðar ekki tryggð.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Skýra og kynna betur aðgengi að þeim opinbera stuðningi sem er til staðar í dag fyrir rannsóknir og nýsköpun í mannvirkjageiranum. Gera kostnaðargreiningu á rannsóknastefnu Vísindaráðs mannvirkjagerðar m.t.t. þeirrar vinnu og búnaðar sem til þarf. Efla starfsemi Asks bæði með þátttöku stjórnvalda og atvinnulífs og greina fleiri mögulegar leiðir til fjármögnunar á mannvirkjarannsóknum bæði í núverandi styrkjaumhverfi og í framtíðarrannsóknaumhverfi.
Markmið aðgerðar: Tryggja bætt og stöðugt fjármagn fyrir rannsóknir í mannvirkjagerð, sem er í samhengi við umfang mannvirkjageirans, samfélagslegar áskoranir okkar varðandi mannvirki, mikilvægi mannvirkjarannsókna og fjármagnsþörf.
Tillaga að ábyrgðaraðila: Verkefnastjórn vegvísis.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Hagaðilar úr vísindasamfélagi og atvinnulífi.
Tími: Lokið fyrir september 2025.
Úrbótatækifæri: Móta þarf betur umgjörð rannsóknavettvangs í mannvirkjagerð, þar sem finna má fullnægjandi rannsóknaaðstöðu svo að hægt sé að framkvæma nauðsynlegar og áreiðanlegar rannsóknir í mannvirkjagerð. Hins vegar skortir helstu forsendur svo að taka megi upplýstar ákvarðanir í þeim efnum.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Settar verða fram nokkrar sviðsmyndir af framtíðarskipan á rannsóknavettvangi í mannvirkjagerð þar sem m.a. verður skilgreind sú rannsóknaþörf sem sviðsmyndin á að uppfylla, hvernig aðgengi að rannsóknabúnaði verði háttað ásamt kostnaði og fjármögnun. Við mótun sviðsmyndanna verður m.a. litið til Asks- mannvirkjarannsóknasjóðs, núverandi sjóðaumhverfis, rannsóknasamfélaga í nágrannaríkjum og innlendra atvinnugreina. Að lokum verður lögð til sú sviðsmynd sem þykir vænlegust til árangurs.
Markmið aðgerðar: Skilgreina nokkrar sviðsmyndir af framtíðarskipan á rannsóknavettvangi í mannvirkjagerð. Í framhaldinu er hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvaða sviðsmynd þykir vænlegust til árangurs fyrir mannvirkjageirann og rannsóknavettvang hans og koma þeirri sviðsmynd í viðeigandi farveg.
Tillaga að ábyrgðaraðila: Verkefnastjórn vegvísis.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Fulltrúar vísindasamfélags og atvinnulífs.
Tími: Lokið fyrir lok árs 2025.
2. Miðlun og hagnýting mannvirkjarannsóknaniðurstaðna
Úrbótatækifæri: Samræming þekkingar, aðferða og verkhátta, bæði á námsstigi og þegar út á vinnumarkaðinn er komið, er ófullnægjandi. Auk þess er námsefni í iðnnámi að miklu leyti úrelt.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Leggja þarf mat á núverandi námsefni og tryggja endurnýjun, samræmingu og stöðuga uppfærslu á námsgögnum hjá öllum fagaðilum, bæði í grunnnámi og á endurmenntunarstigi. Námsefnið þarf að byggja á rannsóknum og aðlögun erlends efnis að íslenskum aðstæðum. Tryggja þarf fjármagn og hæfa aðila til námsgagnagerðar.
Markmið aðgerðar: Bjóða upp á samræmt og stöðugt uppfært námsefni fyrir nemendur og fagaðila á vinnumarkaði. Samræma þekkingu þvert á fagstéttir og tryggja þannig grundvöll til samtals og sameiginlegs skilnings þvert yfir mannvirkjageirann.
Tillaga að ábyrgðaraðila: Óljóst.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Háskólar, tækniskólar, EHÍ, Iðan, Iðnú, MRN og fleiri.
Tími: Lokið fyrir lok árs 2025.
Úrbótatækifæri: Mörg Rb-blaðanna eru úreld og útgáfu nýrra blaða ábótavant.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Greina markhóp Rb-blaðanna til að þau geti verið eins markviss og unnt er og nýtist þar af leiðandi vel. Koma á skilvirku útgáfuferli Rb-blaðanna ásamt reglulegri endurskoðun og uppfærslu í samvinnu við markaðinn. Áhersla lögð á faglega rýni til að tryggja góða innleiðingu á markaði.
Markmið aðgerðar: Að stuðla að samræmdum verkháttum með miðlun á uppfærðri, faglegri þekkingu þvert á fagstéttir.
Tillaga að ábyrgðaraðila: HMS.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Háskólar, tækniskólar og sérfræðingar á markaði.
Tími: Vinna hófst í september 2023. Lokið fyrir lok árs 2024.
Úrbótatækifæri: Eftirspurn er eftir hagnýtum leiðbeiningum fyrir fagfólk. Rb-blöð eru stundum full fræðileg.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Leggja áherslu á fjölbreytni í gerð leiðbeininga í samráði við markaðinn, hagsmunasamtök iðnaðarmanna og fagfélög. Greina þarfir og leiðir fyrir mismunandi fræðslu og fræðsluform.
Markmið aðgerðar: Að stuðla að samræmdum verkháttum með miðlun á hagnýtum leiðbeiningum þvert á fagstéttir.
Tillaga að ábyrgðaraðila: HMS.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: SI, fagfélög, Iðan, tækniskólar og Iðnú.
Tími: Vinna hafin. Lokið fyrir lok árs 2025.
Úrbótatækifæri: Eftirspurn eftir samræmdum verklýsingum í mannvirkjagerð er til staðar enda stuðla þær m.a. að samræmdum skilning um gæði verkefna m.t.t. þeirra krafna sem á að uppfylla og draga þannig úr árekstrum í því sambandi. Tilraunir hafa verið gerðar til að samræma verklýsingar en án árangurs.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Stofna verkefnahóp sem greinir eftirfarandi: Af hverju hefur gengið illa að samræma verklýsingar hingað til? Hvernig hefur þessum málaflokki verið háttað á Norðurlöndunum? Hvaða leiðir er hægt að fara til að samræma verklýsingar í mannvirkjagerð? Hvaða leið er æskileg til árangurs?
Markmið aðgerðar: Að skilgreina verk- og kostnaðaráætlun fyrir samræmingu verklýsinga í mannvirkjagerð.
Tillaga að ábyrgðaraðila: SI.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Fagfélög, opinberir verkkaupar (svo sem FSRE, Isavia, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Vegagerðin), Staðlaráð Íslands o.fl.
Tími: Lokið fyrir júlí 2025.
Úrbótatækifæri: Þátttaka og starf íslenskra fagaðila í alþjóðlegu staðlastarfi (m.a. í evrópskum tækninefndum) þarf að vera öflugt, markvisst og sýnilegt. Þannig má tryggja að hagsmunir íslenskrar mannvirkjagerðar m.a. m.t.t. nýrra rannsókna verði teknir til greina í staðlagerð og sýnileiki slíkrar vinnu stuðlar að aukinni þátttöku fagaðila og notkun staðla hérlendis.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Gefa út lifandi yfirlit yfir staðla- og tækninefndir sem tengjast mannvirkjagerð og hvetja til þátttöku. Treysta virka aðkomu atvinnulífs og hins opinbera og tryggja nauðsynlegt fjármagn til staðlavinnu. Styrkja samstarf íslenskra stjórnvalda og hagsmunasamtaka um fræðslu um stöðlun, hlutverk hennar, virði og beitingu staðla í tengslum við löggjöf.
Markmið aðgerðar: Efla þátttöku og störf íslenskra aðila að staðlastarfi svo stöðlun nýtist með markvissum hætti til að treysta gæðainnviði mannvirkjagerðar.
Tillaga að ábyrgðaraðila: Verkefnastjórn vegvísis.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Staðlaráð Íslands, háskólarnir og Iðan.
Tími: Lokið fyrir lok árs 2025.
Úrbótatækifæri: Enginn hefur yfirsýn yfir þarfir m.t.t. fagþekkingar, t.a.m. þegar nýjar fagstéttir verða til og getur það leitt til þess að við verðum eftirbátar annarra þjóða. Nefna má byggingareðlisfræði, aðlögun mannvirkja að breyttu veðurfari og endurnotkun byggingarvara.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Vísindaráð mannvirkjagerðar, sem setur stefnu um rannsóknir, hefur yfirsýn yfir fagþekkingu á markaði hverju sinni og leggur til nauðsynlegar úrbætur.
Markmið aðgerðar: Stuðla að því að þekking á öllum fagþáttum mannvirkjagerðar sé til staðar í takti við nýja þekkingu, strauma og stefnur.
Tillaga að ábyrgðaraðila: Vísindaráð mannvirkjagerðar.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Fagfélög, háskólar, tækniskólar, EHÍ, Iðan, SI og HMS.
Tími: Lokið fyrir lok árs 2025.
3. Prófanir á byggingarvörum og eftirlit með framleiðslustýringu
Úrbótatækifæri: Faggildingarsvið Hugverkastofunnar (ISAC) hefur starfað án þess að jafningjamat hafi farið fram og því hafa faggildingar sem gefnar hafa verið út á þeirra vegum ekki verið alþjóðlega viðurkenndar.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Tryggja virka starfsemi Faggildingarsviðs Hugverkastofunnar svo að það geti veitt prófunar- og vottunarstofum ásamt öðrum aðilum alþjóðlega viðurkennda faggildingu ásamt því að geta sinnt eftirfylgni með útgefnum alþjóðlegum faggildingum.
Markmið aðgerðar: Faggildingar sem gefnar eru út á vegum Faggildingarsviðs Hugverkastofunnar séu alþjóðlega viðurkenndar.
Tillaga að ábyrgðaraðila: MVF.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Faggildingarsvið Hugverkastofunnar, Faggildingarráð.
Tími: Lokið fyrir lok árs 2025.
Úrbótatækifæri: Engin faggild prófunar- eða vottunarstofa er starfandi hér á landi sem hefur verið tilkynnt af innviðaráðherra til Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, sem hæfur aðili til að staðfesta eiginleika byggingarvara skv. kröfum ESB 305/2011 (CE-merktar vörur). Viðmið stjórnvalda hefur verið að slík stofa skuli vera rekin á einkamarkaði. Ekki virðist vera útlit fyrir að í undirbúningi sé stofnun slíkrar stofu á einkamarkaði sem sinnir öðru en steinefnaprófunum. Stofnun slíkrar stofu hérlendis virðist ekki vera fýsilegur kostur á einkamarkaði enda flestar byggingarvörur hér á landi innfluttar og hafa því þegar verið prófaðar.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Hið opinbera, í samstarfi við viðeigandi aðila á markaði, tengist faggildum prófunarstofum á Norðurlöndum, Þýskalandi og/eða öðrum nágrannaríkjum til að styðja við innleiðingu faggildra prófana í samræmi við alþjóðakröfur og endurnotkun byggingarvara. Þær myndu geta þjónustað íslenska framleiðendur ásamt því að hægt væri í framhaldinu að skoða möguleika á nokkurs konar útibúi slíkrar prófunarstofu hérlendis fyrir ákveðnar byggingarvörur sem á að CE-merkja eða prófanir sem fýsilegt væri að færu fram hérlendis. Ætti þetta við um (faggiltar) prófanir sem ekki er nú þegar hægt að framkvæma hérlendis eða sem ekki er útlit fyrir að muni vera hægt í náinni framtíð t.a.m. hjá verkfræðistofum.
Markmið aðgerðar: Tryggja aðgengi að aðila/aðilum sem geta veitt faggiltar prófanir í samræmi við alþjóðakröfur og ásamt því að stuðla að endurnotkun byggingarvara.
Tillaga að ábyrgðaraðila: Verkefnastjórn vegvísis.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Tæknisetur, skoðunarstofur og verkfræðistofur sem sinna prófunum, Faggildingarráð.
Tími: Lokið fyrir lok árs 2025.
Úrbótatækifæri: NMÍ hafði viðurkenningu til að staðfesta ákveðna eiginleika byggingarvara sem falla undir III. kafla laga um byggingarvörur nr. 114/2014 (ekki CE-merktar byggingarvörur). Eftir niðurlagningu NMÍ er engin prófunarstofa starfandi hér á landi sem fengið hefur viðurkenningu innviðaráðherra til að staðfesta eiginleika þeirra byggingarvara.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Nýta tengingu við faggildar prófunarstofur í nágrannaríkjum sbr. aðgerð 3.2. svo að unnt verði að staðfesta eiginleika byggingarvara sem ekki þarf að CE-merkja, enda er engin prófunarstofa starfandi hér á landi sem fengið hefur viðurkenningu til þess.
Markmið aðgerðar: Tryggja aðgengi að aðilum sem geta staðfest ákveðna eiginleika byggingarvara sem falla undir III. kafla laga um byggingarvörur nr. 114/2014 (ekki CE-merktar byggingarvörur).
Tillaga að ábyrgðaraðila: Verkefnastjórn vegvísis.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: Tæknisetur, skoðunarstofur og verkfræðistofur sem sinna prófunum, Faggildingarráð.
Tími: Lokið fyrir lok árs 2025.
Úrbótatækifæri: Óljóst er hvaða kröfur skulu gerðar til staðfestinga á eiginleikum endurnotaðra byggingarvara og þar með prófunarstofa sem myndu sinna slíkum prófunum.
Nánari lýsing á aðgerð til að mæta úrbótatækifærinu: Móta tillögu að regluverki um það hvernig kröfum varðandi staðfestingu eiginleika á endurnotuðum byggingarvörum verði háttað. Litið verður til nágrannaþjóða í þeirri vinnu.
Markmið aðgerðar: Styðja við hringrásarhagkerfi mannvirkjagerðar með því að gefa út skýrar kröfur varðandi staðfestingu eiginleika á endurnotuðum byggingarvörum.
Tillaga að ábyrgðaraðila: HMS.
Tillaga að æskilegum þátttakendum: IRN, Grænni byggð, Samtök iðnaðarins, Byggjum grænni framtíð o.fl.
Tími: Vinna hafin. Lokið fyrir lok árs 2025.