Gögn og leyfismál
Gögn og leyfismál
Gerðar eru lágmarkskröfur í byggingarreglugerð varðandi hleðslu rafbíla í nýbyggingum og við endurbyggingu. Öll hönnunargögn eiga því að liggja fyrir þegar sótt er um byggingarleyfi, þ.m.t. gögn er snúa að hleðslu rafbíla. Gögn sem snúa að hleðslu rafbíla og skila þarf inn til byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags, með öðrum gögnum, vegna umsóknar um byggingarleyfi eru t.d.:
- Aðaluppdrættir: Staðsetning hleðslustæða í bílgeymslum, bílskúrum og á lóð, í samræmi við lágmarkskröfur um fjölda stæða og fyrirkomulag.
- Raflagnauppdrættir: Nánara fyrirkomulag hleðslu, stærð heimtaugar, stærð og fyrirkomulag rafmagnstöflu, lagnaleiðir, staðsetning og fyrirkomulag tengibúnaðar við bílastæði.
- Lóðauppdrættir (landslagshönnun): Fyrirkomulag hleðslubúnaðar við bílastæði.
Þegar um er að ræða endurbyggingu ræðst umfang hönnunar og breytinga sem þörf er á m.a. af stöðu rafmagnsmála byggingarinnar. Uppdrætti (teikningar) og gögn bygginga sem fyrirhugað er að endurbyggja má nálgast hjá embætti byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags.
Uppsetning hleðslulausna í eldri byggingum kallar í flestum tilvikum á að uppdráttum (teikningum) sé breytt, s.s. aðluppdráttum, raflagnauppdráttum og lóðaruppdráttum (fyrirkomulag á bílastæði). Skila þarf þessum gögnum inn til byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags og mögulega fá leyfi fyrir framkvæmdum, nánari upplýsingar um það veitir byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags.
Sé gert ráð fyrir verulegri hleðslugetu (aflþörf) þarf að rökstyðja það og fá heimild frá viðkomandi dreifiveitu.
Öll vinna við raflagnir, hvort sem um er að ræða nýtt eða eldra húsnæði, skulu unnar af rafverktaka sem hefur til þess löggildingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, B-löggildingu. Það á að sjálfsögðu einnig við um uppsetningu á hleðslulausnum fyrir rafbíla. Löggiltir rafverktakar senda Húsnæðis- og mannvirkjastofnun lokatilkynningu að verki loknu, það á einnig við um uppsetningu hleðslulausna í eldra húsnæði.