Á heimilum eru rafbílar langorkufrekasta raftækið og hleðsla þeirra hefur í för með sér töluverða straumnotkun sem af getur stafað hætta sé ekki rétt að málum staðið. Til að tryggja öryggi hafa verið settar sérstakar reglur um raflagnir á stöðum þar sem hleðsla rafbíla fer fram, sem og um búnað sem nota skal í þessu skyni.

Þessar reglur ásamt árvekni og réttri umgengni notenda við búnaðinn tryggir öryggi við hleðslu rafbíla eins og frekast er unnt.

Uppsetning raflagna og búnaðar til hleðslu rafbíla skal vera á hendi löggiltra rafverktaka og að verki loknu skulu þeir tilkynna það til HMS (lokatilkynning).

Nokkrir mikilvægir punktar um rafmagnsöryggi

  • HMS mælir eindregið með að við heimahleðslu rafbíla sé notuð hleðsluaðferð 3, þar sem sérhæfður búnaður tryggir að rafbíllinn sé tengdur raflögninni á áreiðanlegan og öruggan hátt.
  • Uppsetning raflagna og búnaðar til hleðslu rafbíla skal vera á hendi löggiltra rafverktaka og að verki loknu skulu þeir tilkynna það til HMS (lokatilkynning).
  • Tenglar til heimilisnota, þ.e. hefðbundnir einfasa 16A tenglar, þola hámarksstraum (16A) aðeins í skamman tíma í senn og ætti því ekki að nota til hleðslu rafbíla nema hleðslustraumurinn sé takmarkaður við 10A að hámarki. Sé það ekki gert er hætta á ofhitnun og bruna í tenglinum.
  • Í þeim tilvikum sem hleðsluaðferð 2 er beitt skal þess gætt að öll þyngd á stjórnboxi með öryggisbúnaði sem komið hefur verið fyrir á hleðslustreng, hangi ekki í tenglinum, það getur haft í för með sér ofhitnun og bruna í honum.
  • Rafbíla skal hlaða frá tengipunktum sem sérstaklega eru til þess ætlaðir. Tengipunktur er sá staður sem rafknúið farartæki tengist fastri raflögn, tengill eða inntak á bíl. Hver tengipunktur skal einungis fæða einn rafbíl. Nota skal sérstaka hleðslustrengi sem ætlaðir eru til hleðslu farartækisins. Slíkur strengur skal hæfa þeim aðstæðum sem vænta má, t.d. með tilliti til áverkahættu og hita- og kuldaþols.
  • Í lögn að tengipunkti, þ.e. þeim stað sem rafbíll tengist raflögninni, skal vera jarðleiðari, PE-leiðari, ekki PEN- leiðari.
  • Sérhver tengipunktur skal varinn með yfirstraums- varnarbúnaði og bilunarstraumsrofa (lekastraumsrofa) með málbilunarstraum ekki hærri en 30mA, sem ein- göngu verja þennan tiltekna tengipunkt.
  • Bilunarstraumsrofar skulu vera af gerð A, eða B, eftir því sem við á. Í flestum  tilvikum henta bilunarstraumsrofar af gerð B best. Bilunarstraumsrofa af gerðinni AC, skal ekki nota í þessum tilgangi.
  • Tenglar skulu staðsettir eins nálægt stæði þess rafbíls sem hlaða skal og mögulegt er. Þeir skulu vera fast upp settir. Ekki er leyfilegt að nota færanlega tengla, t.d. á framlengingarsnúru, til hleðslu rafbíla. Hver tengill skal einungis fæða einn rafbíl.
  • Hleðslustrengir skulu hæfa notkun og aðstæðum á hleðslustað, þá má ekki framlengja, t.d. með fjöltengjum eða framlengingarsnúrum, vegna hættu á hnjaski og ofhitnun. Undir engum kringumstæðum mega hleðslustrengir liggja þar sem hætta er á að þeir verði fyrir hnjaski eða af þeim stafi fallhætta, s.s. yfir vegi, gangstéttar eða stíga.
  • Breytistykki ætti ekki að setja milli inntaks á rafbíl og tengisins á enda áfasts hleðslustrengs hleðslustöðvar. Séu breytistykki notuð þarf að ganga úr skugga um að þau séu ætluð fyrir fyrirhugaða notkun, þó þau passi í viðkomandi tengi er ekki öruggt að þau séu gerð fyrir hleðslustrauminn sem vænta má, bæði m.t.t. afls (stærðar) hleðslustöðvarinnar og hleðslumöguleika bílsins. Eingöngu ætti að nota breytistykki sem tilgreind eru og samþykkt af viðkomandi rafbílaframleiðanda eða framleiðanda viðkomandi hleðslustöðvar – upplýsingar um það á að vera að finna í notendaleiðbeiningum sem fylgja rafbílnum og hleðslustöðinni.

  

Val og teng­ing bil­un­ar­straums­rofa

Eins og komið hefur fram í leiðbeiningum HMS skal tengipunktur til hleðslu rafbíla varinn með yfirstraumvarnarbúnaði og 30mA-bilunarstraumsrofa (lekastraumsrofa) sem einungis verja þennan tiltekna tengipunkt.

Yfirstraumsvarnarbúnaðurinn getur verið af „hefðbundinni“ gerð, t.d. sjálfvar, en ekki má nota bilunarstraumsrofa af gerð AC, sem líkast til er sú gerð sem algengust er í neysluveitum hér á landi.

Bent er á að uppsetning raflagna og rafbúnaðar til hleðslu rafbíla er tilkynningarskyld samkvæmt verklagsreglum HMS.

Til að verja tengipunkt rafbíla má nota bilunarstraumsrofa af gerð A sé tryggt að „sléttur“ jafnlekastraumur fari ekki yfir 6mA – það má t.d. gera með sérstökum búnaði í hleðslustöðvum og eins bjóða einhverjir framleiðendur bilunarstraumsrofa sem sérstaklega eru gerðir í þessum tilgangi. Sé ekki til staðar þessi sérstaki búnaður getur verið erfitt að gera sér grein fyrir hvort líklegt sé að jafnlekastraumur fari yfir 6mA og því er „praktískasta“ lausnin að nota bilunarstraumsrofa af gerð B – sé slíkur rofi notaður er almennt ekki þörf á öðrum búnaði vegna jafnlekastraums.

Sé settur upp bilunarstraumsrofi af gerð B til að verja tengipunkt rafbíls skal þess gætt að ofar í lögninni séu ekki bilunarstraumsrofar af gerðum A eða AC, þar sem „sléttur“ jafnlekastraumur yfir 6mA getur haft áhrif á virkni bilunarstraumsrofa af þessum gerðum með þeim hætti að þeir leysi ekki lengur út eins og þeim er ætlað. Hið sama á við sé settur upp bilunarstraumsrofi af gerð A til að verja tengipunkt rafbíls, þá skal þess gætt að ofar í lögninni séu ekki bilunarstraumsrofar af gerð AC.

Hér fyrir neðan eru nokkrar skýringarmyndir með dæmum sem annar vegar sýna hvernig hægt væri að ganga fra lögninni á réttan hátt og hins vegar hvernig ekki skuli ganga frá henni.

Rafmagnsöryggi - samantekt

  • Hver tengipunktur (t.d. tengill eða inntaksbúnaður á bíl) skal varinn með yfirstraumvarnarbúnaði, t.d. sjálfvari, sem aðeins ver þennan tiltekna tengipunkt.
  • Hver tengipunktur skal varinn með 30mA bilunarstraumsrofa (lekastraumsrofa) sem aðeins ver þennan tiltekna tengipunkt.
  • Bilunarstraumsrofar ættu að vera af gerð B – ekki má nota bilunarstraumsrofa af gerð AC, sem er algengasta gerðin á markaðnum.
  • Bilunarstraumsrofa af gerð A má nota sé tryggt að DC-bilunarstraumur verði að hámarki 6mA, eða að settur sé upp annar búnaður til útleysingar fari hann yfir 6mA.
  • Tryggja þarf að „ofar“ í raflögn séu ekki bilunarstraumsrofar sem þola minni DC-bilunarstraum – þeir gætu hætt að virka með réttum hætti.
  • Færanlegir tenglar (snúrutenglar), t.d. á framlengingarsnúru eða fjöltengi, eru ekki leyfilegir.
  • 16A tengla til heimilis- og ámóta nota (Schuko) ætti ekki að nota til hleðslu rafbíla – sé það gert skal tryggja að hleðslustraumur geti að hámarki orðið 10A.

Uppsetning raflagna og búnaðar til hleðslu rafbíla skal vera á hendi löggiltra rafverktaka.